Má mamma ráða hvort ég eigi kærasta?
Vil ekki segja
14
Má mamma mín ráða hvort ég má fá kærasta eða ekki?
Takk fyrir bréfið. Það er mikið sem er að breytast og gerast á unglingsárunum og því fylgir líka mikið álag. Stundum eru foreldrar og unglingar ekki sammála um hvað er best fyrir unglinginn og þá er mikilvægt að foreldrar og unglingar geti rætt hlutina í hreinskilni og með virðingu fyrir skoðunum hins aðilans.
Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs en í því felst að þau eiga rétt á að njóta friðar um einkahagi, eiga trúnaðarsamskipti við aðra og ráða almennt yfir lífi sínu og líkama. Foreldrar fara með forsjá barna sinna og ber skylda til að vernda börn sín en það getur þýtt ákveðnar takmarkanir á frelsi barna og unglinga til einkalífs. Eftir því sem börn verða eldri er eðlilegt að þessi réttur til friðhelgi einkalífs verði ríkari og unglingarnir sjálfir hafi meira um einkamál sín að segja.
Foreldrar þínir bera ábyrgð á velferð þinni. Þau eiga því að ráða persónulegum högum þínum í samræmi við það sem þau telja þér fyrir bestu en þau eiga líka að hlusta á þig og taka réttmætt tillit til skoðana þinna og óska. Það er því ekki hægt að svara spurningunni um það hvort foreldrar þínir megi banna þér að eiga kærasta því það verður að meta í hverju tilviki fyrir sig og út frá öllum aðstæðum. Það væri mjög gott fyrir þig að setjast niður og ræða þessi mál við mömmu þína. Það væri líka mjög gott fyrir þig að eiga samtal við einhvern fullorðinn sem þú treystir um sambönd og samskipti almennt, um hvað eru eðlileg samskipti og hvað ekki, og um það að eiga í jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum við aðra þar sem maður sýnir sjálfum sér og hinum aðilanum virðingu.
Það gæti líka verið gott fyrir þig að leita til t.d. námsráðgjafa í skólanum eða skólahjúkrunarfræðings. Einnig er þér velkomið að senda skilaboð eða hringja í skrifstofu umboðsmanns barna í síma 800 5999 ef þú vilt ræða þetta frekar.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna