Má mamma banna mér að hitta kærastann minn?
Stelpa
15
Má mamma mín banna mér að hitta kærastan minn? Ég er fædd 2001 og hann 1998, hann býr rúmlega klst í burtu og ég sé hann þess vegna ekki oft. Hann var í fíkniefnaneyslu en fór í meðferð. Hann er í Vinakoti núna... En mega foreldrar banna manni að hitta kærasta manns?
Komdu sæl
Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs og eiga að fá stigvaxandi rétt til þess að hafa áhrif á eigið líf. Þar sem þú ert orðin 15 ára átt þú sjálf að ráða mestu um það hvernig persónulegum samböndum þínum er háttað og hverja þú umgengst.
Foreldrar þínir bera samt ábyrgð á þér og ber skylda til þess að vernda þig. Ef mamma þín hefur góða ástæðu til að ætla að það sé skaðlegt fyrir þig að hitta kærasta þinn getur hún strangt til tekið bannað þér það.
Ég mæli með því að þú ræðir málin við mömmu þína. Fortíð kærasta þinn veldur mömmu þinni líklega áhyggjum, auk þess sem hann er nokkrum árum eldri en þú. Kannski ef þið ræðið málin getið þið reynt að skilja sjónarmið hvor annarrar og komist að samkomulagi sem þið eruð báðar sáttar við.
Þú getur lesið meira um sambönd hér á vef umboðsmanns barna.
Gangi þér vel!
Kær kveðja frá umboðsmanni barna