English Danish Russian Thai Polish

Réttindi og ráðgjöf

Kynlíf og sambönd

Kaerustupar

Gott að hafa í huga

Börn ráða almennt yfir líkama sínum sjálf og er það því þeirra ákvörðun hvenær þau byrja að stunda kynlíf. Foreldrar hafa þó ákveðið verndarhlutverk þegar kemur að kynheilbrigði barna t.d. þegar grunur leikur á að barn sé að stefna sjálfu sér eða öðrum í hættu. Almennt er talið að foreldrar hafi rétt til að gera það sem þeir þurfa til að vernda börn sín en of mikil stjórnsemi geti brotið á sjálfsákvörðunarrétti einstaklings og friðhelgi einkalífs. Í friðhelgi einkalífs felst fyrst og fremst réttur til að ráða yfir lífi sínu og líkama og njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Litið er svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt þessu þó að línan á milli þess hvað fellur undir skyldu foreldra til að vernda börn sín og hvað fellur undir of mikla afskiptasemi foreldra geti stundum verið óljós.

Virðing — ábyrgð — vellíðan

Í sambandi við kynlíf unglinga er mikilvægt að hafa í huga að hver og einn ræður yfir líkama sínum sjálfur og enginn annar hefur rétt til að ákveða hvað gert er við líkama þeirra. Kynlíf á að snúast um vellíðan, ánægju, virðingu, traust og ábyrgð.

  • Þeir sem bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum eru líklegri til að setja mörk og sætta sig ekki við hvað sem er. Þannig er hægt að forðast óæskilega kynlífsreynslu.
  • Mikilvægt er að sýna ábyrgð, lesa sér til um getnaðarvarnir, kynsjúkdóma og veirusmit og hafa í huga að kynlíf með öðrum getur bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan.
  • Líkurnar á alvarlegum afleiðingum kynlífs, eins og kynsjúkdómum og þungunum, aukast eftir því sem unglingar byrja fyrr að stunda kynlíf og bólfélögum fjölgar.

Algengar spurningar

Hvenær má byrja að sofa hjá?

Það segir hvergi beint í lögum að unglingar þurfi að hafa náð ákveðnum aldri til að mega stunda kynlíf. Hins vegar er ákvæði í almennum hegningarlögum, þar sem segir að það sé refsivert að stunda kynlíf með einstaklingi sem er yngri en 15 ára. Þetta lagaákvæði miðar fyrst og fremst að því að vernda börn og unglinga fyrir misnotkun sér eldra fólks sem vill nýta sér þroska- og reynsluleysi barnanna. Þetta segir í lögunum en það er síðan annað mál að enginn ætti að byrja að stunda kynlíf með öðrum fyrr en hann er tilbúinn til þess sjálfur og gerir sér grein fyrir afleiðingum þess andlega og líkamlega.

Hvenær mega stelpur byrja á pillunni án samráðs við foreldra?

Í lögum er ekki kveðið á um að börn þurfi að hafa náð ákveðnum aldri til þess að kaupa eða fá afhentar getnaðarvarnir og eru sumar þeirra aðgengilegar í venjulegum verslunum. Á það til dæmis við um smokka, sem er sú getnaðarvörn sem fagfólk mælir helst með fyrir unglinga, enda veitir hún vörn gegn bæði kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum. Þá eiga stúlkur á öllum aldri að geta nálgast neyðargetnaðarvarnir sem eru afgreiddar án lyfseðils.

Aðeins læknar geta gefið út lyfseðla (þeir senda rafrænan lyfseðil á netinu í lyfjagátt apótekanna). Svo þarf gefa upp kennitöluna sína í apótekinu og þá fær maður pilluna afhenta gegn greiðslu. Skiptar skoðanir eru á því frá hvaða aldri stúlkur eiga að geta fengið lyfseðil fyrir pillunni án aðkomu foreldra. Þar sem lög kveða ekki beinlínis á um það við hvaða aldur eigi að miða þurfa læknar að meta það í hverju tilviki fyrir sig. Þar sem hormónatengdar getnaðarvarnir geta falið í sér töluvert inngrip í líkama stúlkna telur umboðsmaður barna þó mikilvægt að læknar fari mjög varlega í að ávísa þeim til stúlkna undir 16 ára aldri, án vitneskju foreldra.

Yfirleitt er betra að leyfa foreldrum að vera með í ráðum þegar ákvörðun er tekin um það að byrja á pillunni. Þau bera jú ábyrgð á börnum sínum og hafa áhuga á því að vita hvað þau eru að gera. Pillan inniheldur hormón og er því í raun inngrip í líkamsstarfsemi barnsins. Aukaverkanir geta líka verið ýmsar og því er mikilvægt að foreldrar séu hafðir með í ráðum og viti um ástæður þeirra til að geta brugðist sem best við og hjálpað barni sínu.

Hvenær mega stúlkur fara í fóstureyðingu án þess að foreldrar viti?

Í lögum segir að sé kona yngri en 16 ára eða svipt sjálfræði, skuli foreldrar eða lögráðamaður taka þátt í umsókn um fóstureyðingu með henni nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ef stúlka sem náð hefur 16 ára aldri óskar eftir því að fara í fóstureyðingu þarf því ekki að hafa samráð við foreldra hennar. 

Réttindi stúlkna 16 ára og eldri til að láta framkvæma fóstureyðingu hafa því verið talin ganga því framar rétti foreldra/forsjáraðila til að ráða yfir persónulegum högum þeirra. Hér er þó mikilvægt að hafa í huga að þó að læknar séu bundnir trúnaði við sjúklinga sína verða þeir, eins og allir aðrir, að fylgja ákvæðum laga um tilkynningarskyldu til barnaverndar ef þeir telja viðkomandi stúlku búa við óviðunandi aðstæður eða að hún stofni heilbrigði sínu í hættu með hegðun sinni.

Það verður að telja mjög eðlilegt að foreldrar vilji fá að vera með í ráðum þegar ákvörðun um fóstureyðingu er tekin, enda bera foreldrar ábyrgð á velferð og líðan barna sinna og geta í flestum tilfellum gefið börnum sínum góð ráð og stuðning. Því fylgir mikið álag að láta framkvæma fóstureyðingu og það getur haft ýmis konar afleiðingar, bæði líkamlegar og andlegar og þeir sem ganga í gegn um þessa lífsreynslu þurfa á miklum stuðningi að halda frá sínum nánustu. Það er yfirleitt best að stúlkan (og drengurinn þegar það á við) setjist niður með foreldrum sínum og ræði þetta. Foreldrunum ber að sjálfsögðu að hlusta á stúlkuna, taka réttmætt tillit til skoðana hennar og virða rétt hennar til að ráða yfir líkama sínum.

Fleiri spurningar og svör um kynlíf og sambönd í Spurt og svarað.

Ráðgjöf fagfólks

Ef þú ert að leita upplýsinga um sambönd, kynlíf, kynsjúkdóma, getnaðarvarnir og fleira því tengdu er heilmikið af upplýsingum í boði. Best er að leita upplýsinga og ráða hjá fagfólki, eins og t.d. læknum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum eða félagsráðgjöfum. Hér eru þeir aðilar sem umboðsmaður mælir með að unglingar leiti til með spurningar og vandamál sem tengjast kynlífi og samböndum.

www.6h.is
Alls konar góðar upplýsingar um kynheilbrigði. Smelltu hér ef þú vilt spyrja hjúkrunarfræðing um eitthvað.

Stattu með þér
Stattu með þér! er 20 mínútna stuttmynd ætluð nemendum á miðstigi grunnskóla. Myndinni er ætlað að spyrna gegn kynferðisofbeldi og klámvæðingu með sjálfsvirðingu og jákvæðni að leiðarljósi. Nánar hér

Fáðu já
Fáðu já! er 20 mínútna stuttmynd sem ætlar sér að skýra mörkin á milli kynlífs og ofbeldis, vega upp á móti áhrifum klámvæðingar, brjóta ranghugmyndir á bak aftur og innræta sjálfsvirðingu í nánum samskiptum. Nánar á www.faduja.is

Ástráður — Félag læknanema um forvarnir 
Á heimasíðu félags læknanema um forvarnir, www.astradur.is, má finna upplýsingar um ýmislegt sem tengist kynlífi, kynsjúkdómum, þungunum, getnaðarvörnum og nauðgunum. Hægt er að senda læknanemunum tölvupóst í fullum trúnaði á netfangið leyndo@astradur.is.

Tótalráðgjöfin 
Áttavitinn og Tótalráðgjöf eru með vefinn www.attavitinn.isSmelltu hér ef þú ert orðin 16 ára og vilt spyrja ráðgjafa um eitthvað. Hægt er að hringja í síma 520–4600, koma (í Hitt húsið, Pósthússtræti í Reykjavík) eða senda tölvupóst. Meðal þeirra sem standa að Tótal-ráðgjöfinni eru fræðslusamtök um kynlíf og barneignir sem hafa mikla reynslu í að ráðleggja ungu fólki og miðla til þess upplýsingum í tengslum við kynlíf og ýmislegt sem tengist því.

Samtökin ‘78 
Á heimasíðu Samtakanna ‘78, samtökum hinsegin fólks á Íslandi, er að finna ýmsar upplýsingar um málefni hinsegin fólks, s.s. um tví- og samkynhneigð. Ungliðahópur Samtakanna 78 er ætlaður hinsegin ungmennum á aldrinum 14 - 20 ára. Hópurinn er á Facebook.

Göngudeild húð- og kynsjúkdóma 
Göngudeild húð- og kynsjúkdóma er á Landspítalanum í Fossvogi. Síminn þar er 543–6050. Tímapantanir eru milli 8:15–15:45 alla virka daga en hjúkrunarfræðingar veita líka ráðgjöf og fræðslu um húð- og kynsjúkdóma í síma.

Kvennasvið Landspítalans 
Á Kvennasviði Landspítala — háskólasjúkrahúss starfa félagsráðgjafar sem veita símaráðgjöf alla virka daga kl. 9:00–10:00. Félagsráðgjafarnir veita fræðslu, stuðning og ráðgjöf varðandi þunganir, fóstureyðingar, kvensjúkdóma og félagsleg réttindi. Símanúmerið er 543–3600. Eftir kl. 10 er hægt að skilja eftir skilaboð í talhólfi.

Leiðin áfram
Á vefnum leidinafram.is er að finna fræðsluefni og myndbönd fyrir þá sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og aðstandendur þeirra. 

Aðstoð í boði nálægt þér

Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda á að börn og unglingar eiga alltaf að geta leitað til þessara aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð:

  • Grunnskólanemar geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. hjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
  • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það. 

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn eða skoðaðu spurningar og svör um kynheilbrigði hér.

Miklu nákvæmari texti og meiri upplýsingar um kynheilbrigði er að finna hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.