Má kennarinn skipa mér fyrir?
Strákur
14
Má kennarinn skipa mér að gera hluti eins og sitja í skólastofunni eða gera verkefni sem mig langar ekki til að gera?
Hæ hæ
Börn eiga sjálf að ráða miklu um eigið líf og það á að taka tillit til þess ef þau vilja ekki gera ákveðna hluti í skólastarfi. Bæði kennarar og nemendur eiga að koma fram við hvort annað af virðingu. Hins vegar er skólaskylda á Íslandi og því verða öll börn á aldrinum 6 til 16 ára að mæta í skólann og fylgja námskrá, skólareglum og fyrirmælum kennara um t.d. verkefni sem á að vinna eða að sitja í tíma til þess að trufla ekki aðra nemendur í bekknum sem eiga rétt á því að fá vinnufrið.
Börn eiga hins vegar að hafa ýmislegt um skólastarfið að segja þannig að ef þér finnst verkefni sem kennari setur fyrir vera leiðinlegt þá átt þú rétt á því að ræða það og kennarinn á auðvitað að hlusta á þig, þó svo að það sé kannski ekki alltaf hægt að breyta verkefnum. Kannski ert þú með hugmyndir að því hvernig hægt væri að gera þetta verkefni skemmtilegra og áhugaverðara? Þá skalt þú endilega ræða þetta við kennarann og bekkjarfélaga þína og kannski væri þá hægt að breyta verkefni sem á að leggja fyrir seinna á önninni.
Ef þú ert með frekari spurningar um þetta eða eitthvað allt annað mátt þú endilega hafa samband aftur, með því senda skilaboð í gegnum síðuna okkar eða tölvupóst á ub@barn.is. Svo má líka senda okkur skilaboð á facebook eða hringja í gjaldfrjálsa númerið okkar 8005999.