Má kennari taka af mér orku- eða gosdrykk?
strákur
14
Ef maður er með orku/gosdrykki í tíma eða á göngunum má kennarinn taka drikkinn og hella úr honum eða geyma hjá skólastjóranum?
Komdu sæll
Nemendur í grunnskólum verða að fylgja skólareglum og fyrirmælum kennara og annars starfsfólks, eins og fram kemur í lögum um grunnskóla. Í langflestum grunnskólum gildir sú regla að það sé bannað að vera með orku- og gosdrykki á skólatíma nema við sérstök tilefni.
Ef nemandi virðir ekki skólareglur eða fer ekki eftir fyrirmælum kennara er heimilt að bregðast við í samræmi við skólareglur. Þannig getur kennari gert þá kröfu að nemandi afhendi orku- eða gosdrykk sem hann er með í leyfisleysi. Viðbrögð kennarans verða að vera í samræmi við brotið og honum er skylt að velja vægasta úrræðið sem kemur til greina (sjá nánar um þetta í þessari reglugerð). Ætti kennarinn því að mati umboðsmanns barna ekki að hella úr drykknum. Hins vegar gæti kennarinn ákveðið að geyma drykkinn, til dæmis hjá skólastjóranum, og afhenda nemanda hann svo aftur í lok dags.
Ef þú ert með fleiri spurningar eða vilt ræða málið nánar er þér velkomið að hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).
Kær kveðja frá umboðsmanns barna.