Má kennari lemja mann með blýanti?
barn
15
Má kennari lemja nemanda sinn í hausinn með blýanti (fast)? Ég vil bara koma fleiru fram um þennan tiltekna kennara, hún sagði ekki fyrirgefðu(ef hún hafði gert það, þá mundi ég fyrirgefa henni) og horfir hún mjög illilega á mig oft eins og hún sé með persónulegt hatur gegn mér.
Hæ hæ
Börn eiga rétt á því að líða vel í skólanum sínum og njóta verndar gegn ofbeldi, hvort sem það er andlegt eða líkamlegt. Það að slá barn í höfuðið með blýanti eða einhverjum öðrum hlut telst ofbeldi að mati umboðsmanns barna. Kennari má því alls ekki lemja nemanda í hausinn með blýanti. Kennarar eiga líka samkvæmt lögum að sýna börnum kurteisi og nærgætni. Það er því heldur ekki í lagi að mati umboðsmanns barna að kennarinn þinn horfi illilega á þig.
Það er mikilvægt að þú segir foreldrum þínum frá þessu og biðjir þá um að hafa samband við skólann. Þú getur líka talað við einhvern annan í skólanum sem þú treystir, t.d. skólastjóra, námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðing. Þessir aðilar geta vonandi talað við kennarann og fengið hann til þess að átta sig á því hvaða áhrif hegðun hans hefur á þig.
Ef þú vilt fá frekari aðstoð eða ert með frekari spurningar skaltu endilega hafa samband aftur. Þú getur sent tölvupóst á ub@barn.is eða hringt í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).
Kær kveðja frá umboðsmanni barna.