Má ég ráða hvort ég fer til pabba?
strákur
15
hef ég rétt á því að ráða hvort ég fer til pabba eða ekki? og eins bróðir minn sem er 13 ára
Komdu sæll
Þar sem þið eruð orðnir 13 og 15 ára eigið þið að ráða mjög miklu um það hvort og þá hvenær þið farið í umgengni til pabba ykkar.
Samkvæmt lögum eru það foreldrar sem eiga að taka ákvörðun um umgengni barna. Börn eiga hins vegar rétt á því að segja sína skoðun og á sú skoðun að hafa meiri og meiri áhrif eftir því sem börn eldast og þroskast. Þegar börn eru komin á unglingsaldur eiga þau að ráða mestu um það hvernig umgengni er háttað og er ekki rétt (og í raun illframkvæmanlegt) að þvinga unglinga í umgengni gegn vilja þeirra.
Það þurfa allavega að vera góðar ástæður fyrir því að leyfa ykkur ekki að ráða hvort eða hversu oft þið farið til pabba ykkar. Það þarf þá að meta alls konar hluti eins og t.d. samskipti við foreldra og aðra í fjölskyldunni, umhverfi, skólagöngu, aðstæður á heimilum foreldra og finna út hvað er ykkur fyrir bestu. Yfirleitt er best ef foreldrar og börn ræða málin og reyna að komast að samkomulagi sem allir eru sáttir við.
Ef þú vilt ræða málið nánar er þér velkomið að hafa samband í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).
Gangi þér vel!
Kær kveðja frá umboðsmanni barna.
* Uppfært: Umboðsmaður barna vill vekja athygli á því að nú geta börn geta beðið sýslumann um að boða foreldra þess til fundar til að ræða óskir barnsins um breytingar á fyrirkomulagi forsjár, lögheimilis, búsetu eða umgengni.
Áður en foreldrar eru boðaðir til samtals á að gefa barninu kost á viðtali með fagaðila sem aðstoðar það við að koma eigin sjónarmiðum á framfæri við foreldra.
Barn getur haft samband við sýslumann með því að hringja eða senda tölvupóst eða koma við á skrifstofu sýslumanns og biðja um samtal.
Hér má finna nánari upplýsingar um þetta:: https://island.is/rettur-barns-til-thess-ad-leita-til-syslumanns