Lágmarkslaun - gildir afmælisdagurinn eða árið?
Stelpa
15
Hæ ég er 15 að verða 16 á þessu ári ég var að pæla hvort lagmarkslaunin min eru samkvæmt aldrinum sem ég er eða aldrinum sem ég verð á árinu?
Hæ hæ
Takk fyrir spurninguna, flott hjá þér að leita þér upplýsinga um hvaða reglur gildi um launin þín.
Launin þín eiga að miðast við aldurinn sem þú verður á árinu. Þannig að ef þú ert 15 að verða 16 ára á árinu þá eiga launin þín að miðast við 16 ára.
Það væri líka gott fyrir þig að komast að því í hvaða stéttarfélag þú ert að greiða í, en þú getur spurt manneskjuna sem sér um launin um það eða séð það á launaseðlinum þínum. Þú finnur launaseðilinn þinn í heimabankanum þínum undir „rafræn skjöl.“ Þegar þú veist í hvaða stéttarfélag þú ert að greiða í getur þú flett upp launataxtanum og séð hvort þú ert að fá greitt í samræmi við hann. Það getur verið erfitt að átta sig á því hvað nákvæmlega á við um þitt starf, en ef svo er þá getur þú alltaf hringt í þitt stéttarfélag og fengið aðstoð.
Til dæmis, ef þú ert í þjónustustarfi er líklegt að kjarasamningur VR gildi um starfið þitt og átt að fá greitt samkvæmt kjarasamningi VR. Hér getur þú séð launataxta VR frá 1. apríl 2019 á heimasíðu VR : https://www.vr.is/media/6104/launataxtar-april-2019.pdf . Launataxtinn gefur upp flokka þar á meðal eftir aldri, upphæðirnar sem þar eru gefnar upp eru lágmarkslaun sem þýðir að það má ekki greiða þér minna en sem þar kemur fram. Þér er samt alltaf heimilt að semja við vinnuveitandann um hærri laun en þar kemur fram.
Þú getur líka lesið meira um ýmislegt sem tengist vinnu barna og ungmenna á heimasíðu umboðsmanns barna hér : https://www.barn.is/frettir/2019/06/vinna-barna/
Ef þú hefur einhverjar fleiri spurningar er þér velkomið að hafa aftur samband við okkur með því að svara þessum tölvupósti eða hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst símanúmer).
Kær kveðja frá umboðsmanni barna