iPod og GSM símar teknir af nemendum
strákur
15
Telst það ekki sem stuldur ef kennari tekur síma/iPod úr vasa eða höndum nemanda og nemandi neitar í skólum? Einn stærðfræði kennarinn í skólanum mínum sagði að ef einhver myndi taka eitthvað af skrifborðinu sínu eða hillunni myndi sá fara til skólastjóra fyrir stuld...
Nokkrum dögum áður hafði hann tekið iPod sem verið var að nota af einum nemanda... Það má vísa manni úr tíma en ekki taka hluti af manni ófrjálsri hendi, er það nokkuð? Kennarinn sagði að það standi í skólareglum að símar og önnur tól mega vera gerð upptæk... En skólareglur eru ekki landslögum æðri er það nokkuð?
Komdu sæll
Þú nýtur ýmissa réttinda samkvæmt lögum og reglugerðum, í grunnskólanum sem og annars staðar, en þú verður líka að hafa í huga að þú berð líka skyldur.
Það er öllum nemendum til hagsbóta að nýta tímann í skólanum sem best. Það er alveg eðlilegt að í skólareglum segi að nemendur megi ekki vera með tæki eins og iPod og GSM. Það truflar kennslu og spillir vinnufriði sem allir nemendur í grunnskóla eiga rétt á.
Ef nemendur virða ekki þá reglu er að sjálfsögðu hægt að bregðast við, rétt eins og þegar nemendur trufla kennslustund með öðrum hætti. Til dæmis er hægt að bjóða nemendum að láta kennara geyma símann á meðan kennslustund stendur. Ef þeir vilja það ekki gæti verið næsta skref að vísa þeim úr tíma. Börn njóta eignaréttar eins og fullorðnir og alveg eins og yfirmönnum á vinnumarkaði er ekki heimilt að taka eignir af undirmönnum sínum er almennt ekki heimilt fyrir starfsfólk skóla að taka eignir af nemendum.
En það sem þú segir hér að ofan er alveg rétt. Börn njóta eignaréttar eins og aðrir. Hvorki í lögum um grunnskóla né reglugerðum er að finna heimildir grunnskóla til að taka eignir af nemendum. Það þýðir að kennurum eða öðrum er almennt óheimilt að taka eignir nemenda, nema um sé að ræða muni sem geta stefnt þeim sjálfum eða öðrum í hættu.
Því miður eru skólareglur í grunnskólum stundum ekki í samræmi við þetta og starfsfólk skólanna telur sig vera að gera rétt með því að fylgja þeim. Það er því varla hægt að segja að starfsfólk sé að stela ef það tekur hluti af nemendum. Réttast væri að benda skólastjórnendum á að starfsfólk skólans megi strangt til tekið ekki taka hluti af nemendum og því þurfi að breyta skólareglum þannig að starfsfólk hafi aðrar leiðir til að takast á við brot á skólareglum.
Þegar útbúnar eru reglur um símanotkun og agaviðurlög er mikilvægt að hafa samráð við nemendur og foreldra.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna