Hvenær má sofa hjá?
Stelpa
14
hvað þarf maður að vera gamall til þess að sofa hjá jafnaldra eða 2 ári eldri
Hæ hæ.
Takk fyrir fyrirspurnina. Það segir hvergi beint í lögum að unglingar þurfi að hafa náð ákveðnum aldri til að mega stunda kynlíf. Hins vegar er ákvæði í almennum hegningarlögum, þar sem segir að það sé refsivert að stunda kynlíf með einstaklingi sem er yngri en 15 ára. Þessu ákvæði er þó fyrst og fremst ætlað að vernda börn og unglinga fyrir misnotkun eldra fólks. Ef þetta lagaákvæði er brotið getur refsing orðið fangelsisvist. Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.
Þetta segir í lögunum, en það er síðan annað mál, að enginn ætti að byrja að stunda kynlíf með öðrum fyrr en hann er tilbúinn til þess sjálfur og gerir sér grein fyrir afleiðingum þess andlega og líkamlega.
Ef þig vantar upplýsingar um kynlíf og getnaðarvarnir þá ættir þú að hafa samband við skólahjúkrunarfræðinginn í skólanum þínum sem getur líka frætt þig um áhættuna sem fylgir óábyrgu kynlífi.
Hér getur þú líka fundið ýmsar gagnlegar upplýsingar um kynheilbrigði: /malaflokkar/kynheilbrigdi/ og hér getur þú fengið góðar upplýsingar um heilbrigð og jákvæð samskipti https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item15510/Heilbrigd-sambond
Þér er velkomið að senda okkur skilaboð á netfangið ub@barn.is eða hringja í okkur í síma 800 5999 ef þú vilt ræða þetta frekar.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna