Hvenær má ég ráða hvar ég bý?
stelpa
14
Hversu gömul þarf ég að vera til að ákveða sjálf hvar ég bý ef foreldrar eru ósammála?
Komdu sæl
Um búsetu- og eða dvalarstað barna er fjallað í barnalögum.
Í 28. gr. laganna segir að þeir sem fari með forsjá barns, yfirleitt foreldrar þess, geti ákveðið hvar barnið býr.
Einfaldasta svarið við spurningu þinni er því svona: Foreldrar ákveða búsetustað barns fram að 18 ára aldri. Þegar þú verður 18 ára ræður þú þér sjálf. Ef foreldrar þínir fara ekki saman með forsjá þína ræður það foreldri sem fer með forsjána meira en hitt. Ef forsjáin er sameiginleg þá verða foreldrar þínir að reyna að komast að samkomulagi um það hvar þú átt að búa.
EN, í lögunum er hins vegar líka tekið fram að foreldrum beri skylda til þess að hafa samráð við barn sitt þegar ákvarðanir er varða persónuleg málefni þeirra eru teknar. Samkvæmt þessu ber foreldrum að taka tillit til vilja og afstöðu barns áður en þeir taka ákvörðun sem þessa, eftir því sem aldur og þroski barnanna segir til um.
Þú segist vera 14 ára gömul. 14 ára unglingur ætti að hafa mikið um það að segja hvar hann býr, en forsjáraðilinn hefur þó alltaf lokaorðið. Það er því nauðsynlegt að foreldrar og börn geti rætt saman þegar ákvörðun um búsetustað er tekin og æskilegt að börn geri foreldrum sínum grein fyrir því hvar þeim líður best.
Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn og foreldrar leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á viðkomandi sveitarfélag kemst þú inn á heimasíðu þíns sveitarfélags.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna