Hve lengi má skóli halda eignum?
Strákur
14
Hversu lengi hafa skólar rétt á að halda eignum sem þeir hafa tekið af krökkum? Mega þeir halda eignunum eins og þeim sýnist eða er einhver tímaregla t.d. til kl. 4 eða eitthvað?
Komdu sæll
Eins og kemur fram í frétt á heimasíðu umboðsmanns barna telur umboðsmaður að skólar eigi almennt ekki að taka eignir nemenda, nema það sé talið nauðsynlegt til að vernda þá sjálfa eða aðra.
Í þeim tilvikum sem skólar hafa talið nauðsynlegt að fjarlægja eignir nemanda ber þeim að skila þeim til baka eins fljótt og hægt er. Það eru ekki nein ákveðin tímamörk sem gilda en umboðsmaður barna telur þó almennt eðlilegt að eignum sé skilað í síðasta lagi í lok skóladags. Þetta á þó ekki við ef um er að ræða hættulega hluti sem börn eiga yfirhöfuð ekki að vera með.
Börn eiga að geta sótt hlutina sjálfir, án þess að foreldrar séu með. Skólinn getur þó ákveðið að boða foreldra á fund, t.d. ef brotið var alvarlegt.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna