Hvað er mikilvægt að vita?
stelpa
14
Hvað er mikilvægast að vita þegar kona er að fara að stunda kynlíf i fyrsta skipti?
Komdu sæl
Gott hjá þér að spyrja :-). Það er einmitt mjög jákvætt að vera óhrædd að ræða málin og leita ráða.
Í sambandi við kynlíf unglinga er mikilvægt að hafa í huga að hver og einn ræður yfir líkama sínum sjálfur. Enginn annar en þú sjálf hefur rétt á að ákveða hvað gert er við líkama þinn og því er ágætt að þú þekkir líkama þinn vel.
Kynlíf á að snúast um vellíðan, ánægju, virðingu, traust og ábyrgð. Stundum getur það verið vandræðalegt og skrýtið enda eru hugmyndir fólks og væntingar oft mismunandi. Hafðu þetta í huga:
- Þeir sem bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum eru líklegri til að setja mörk og sætta sig ekki við hvað sem er. Þannig er hægt að forðast óæskilega kynlífsreynslu.
- Mikilvægt er að sýna ábyrgð, lesa sér til um getnaðarvarnir, kynsjúkdóma og veirusmit og hafa í huga að kynlíf með öðrum getur bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan.
- Líkurnar á alvarlegum afleiðingum kynlífs, eins og kynsjúkdómum og þungunum, aukast eftir því sem unglingar byrja fyrr að stunda kynlíf og bólfélögum fjölgar.
Það er til fullt af góðu efni um kynheilbrigði sem er gott að kynna sér vel. Þú getur t.d. byrjað á því að kíkja á þetta:
- Um kynheilbrigði á vefnum 6h.is. Hér eru upplýsingar um kynsjúkdóma, getnaðarvarnir og ýmislegt annað. Hér er líka hægt að senda hjúkrunarfræðingi fyrirspurn í trúnaði.
- Stuttmyndin Stattu með þér.
- Stuttmyndin Fáðu JÁ.
Ef þú treystir þér til að ræða þetta við foreldra eða hjúkrunarfræðinginn í skólanum þá er það auðvitað það sem við mælum helst með. Við skiljum þó að það getur verið erfitt og því bendum við á hjúkrunarfræðinginn á 6h.is sem þú spyrð hér eða Ástráð en þar svara læknanemar spurningum frá netfanginu leyndo@astradur.is.
Þú þarft ekki að flýta þér neitt þegar kemur að því að byrja að stunda kynlíf með öðrum. Það er einmitt fínt að kynna sér málin og ræða þau áður en þú ákveður hvað þú ert tilbúin í og hvar þín mörk liggja.
Hérna á vef umboðsmanns barna eru svo meiri upplýsingar um kynheilbrigði og réttindi og skyldur þegar kemur að kynlífi.
Ef það er eitthvað meira sem þú vilt spyrja um skaltu endilega hafa samband aftur.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna