Heimilisvandamál - slæm samskipti við móður
Vil ekki segja
15
Umboðsmaður barna fékk spurningu um daginn þar sem ekkert netfang fylgdi og er því svarið birt hér. Í spurningunni kemur fram að viðkomandi hafi ekki talað við foreldri sitt í langan tíma vegna slæmra samskipta.
Hæ.
Það er ekki gott að heyra hvað það er slæmt samband hjá þér og móður þinni. Það er eðlilegt að það komi upp ágreiningur á milli fólks en það skiptir þá mestu máli hvernig unnið er úr þeim málum. Okkur langar að benda þér á vefinn heilsuvera.is en þar er að finna ýmsar góðar aðferðir til að leysa úr samskiptamálum. Hér eru einnig slóðir á fleira efni af þeirri síðu sem gæti verið gagnlegt fyrir þig að lesa.
Þú átt vissulega rétt á því að finna til reiði og að tjá þá tilfinningu og þú hefur líka, eins og mamma þín, rétt á að gera mistök og taka ábyrgð á þeim. Það getur verið erfitt að viðurkenna að maður hafi gert mistök og fólk á það jafnvel til að bregðast reitt við ef þeim er bent á það. Flestir átta sig þó á því og reyna að gera sitt besta til að bæta úr þeim eða taka ábyrgð á þeim á annan hátt.
Best væri fyrir þig að byrja á að ræða við móður þína á rólegum nótum og segja henni hvernig þér líður. Ef þú treystir þér ekki til að tala við hana ein/n þá mælum við með að þú fáir einhvern sem þú treystir vel til að vera með til halds og trausts. Samskipti geta oft verið mjög flókin og getur leitt til misskilnings sem þarf að leysa úr. Það er því mikilvægt ef þið mynduð ræða málin saman rólega.
Ef þú treystir þér ekki til að ræða við móður þína gætir þú t.d. leitað til kennara, námsráðgjafa eða skólasálfræðing í skólanum þínum. En þú ættir einnig að geta leitað til heilsugæslunnar í þínu hverfi eða sveitarfélagi og fengið að ræða við hjúkrunarfræðing eða sálfræðing. Þá bendum við einnig á vefspjall sem er inni á vefnum heilsuvera.is og svo er hægt að leita til hjálparsíma Rauða krossins 1717 sem er einnig með vefspjall.
Ef þér líður mjög illa þá getur þú líka haft samband við barnavernd. Það er hægt að hringja í 112 og biðja um samband við barnavernd.
Endilega hafði samband aftur ef þú hefur fleiri spurningar, þú getur annaðhvort sent okkur fyrirspurn hér á vefnum, sent okkur tölvupóst á ub@barn.is eða hringt í síma 800-5999 (gjaldfráls sími).
Kær kveðja, starfsfólk umboðsmanns barna