Heimakennsla
strákur
15
Má vera heimaskólaður? Kann ekki að orða þetta, ég vill vera heima í skólanum mér líður illa í mínum skóla hef lent í einelti og ekkert lætur mig líða betur og langar að vera heima skólaður það hefur verið sýnt í bandaríkjunum að nemendur sem hafa verið home schooled hafa haft 20% betri einkunnir þannig afhverju má ekki vera heima skólaður?
Komdu sæll
Það er leitt að heyra hvað þér líður illa í skólanum.
Í stuttu máli er svarið já, það er hægt að sækja um heimakennslu á Íslandi (sem er sambærilegt og homeschooling) en bara ef það foreldri sem sér um kennsluna er með réttindi til þess að kenna í grunnskólum.
Samkvæmt lögum eiga öll börn á aldrinum 6 til 16 ára að ganga í skóla. Það er lítil hefð fyrir því hér á landi að börn fái heimakennslu. Ástæða þess er meðal annars sú að það er talið mikilvægt að börn læri margt annað en námsefnið í skólanum, til dæmis félagsfærni.
Foreldrar geta óskað eftir því að fá að kenna börnum sínum heima, að hluta eða öllu leyti. Það foreldri sem ætlar að sjá um heimakennsluna þarf samt að hafa leyfi til þess að kenna í grunnskóla (sjá reglugerð um heimakennslu). Þessi regla er sett til þess að tryggja að öll börn fái nógu góða kennslu.
Ég mæli með því að þú talir við foreldra þína og segir þeim frá því hvernig þér líður. Foreldrar þínir bera ábyrgð á þér og eiga að gera allt sem þeir geta til þess að tryggja að þér líði vel, bæði heima og í skólanum. Það gæti líka verið gott fyrir þig að tala við einhvern sem þú treystir í skólanum, t.d. námsráðgjafa eða umsjónarkennara. Þessir aðilar eiga að hjálpa þér og reyna finna einhverja leið til þess að þér fari að líða betur í skólanum.
Endilega hafðu samband aftur ef þú vilt fá frekari aðstoð eða ert með fleiri spurningar. Þú getur sent tölvupóst á ub@barn.is eða hringt í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).
Gangi þér vel!
Kær kveðja frá umboðsmanni barna