Geta foreldrar bannað mér að eiga kærasta?
stelpa
16
Ég er 16 ára stelpa og er að hitta strák, en foreldrar mínir banna mér að eiga kærasta. Geta þau gert það ?
Komdu sæl
Í fyrirspurn þinni til umboðsmanns barna spyrð þú hvort að foreldrar þínir geti bannað þér að eiga kærasta.
Foreldrar þínir fara með forsjá yfir þér til 18 ára aldurs. Það þýðir að þeir bera ábyrgð á velferð þinni og eiga að tryggja öryggi þitt. Þú átt hins vegar rétt á friðhelgi einkalífs en í því felst meðal annars að þú ræður almennt sjálf yfir eigin lífi og líkama. Þú átt líka rétt á því að ráða mestu um það hverja þú umgengst og með hverjum þú ert í sambandi. Foreldrar þínir mega því almennt ekki banna þér að eiga kærasta ef allt gengur vel. Ef foreldrar þínir hafa ríka ástæðu til að halda að samvera við kærasta þinn geti skaðað þig ber þeim þó skylt að grípa inn í. Gæti það til dæmis átt við ef hann er miklu eldri, beitir ofbeldi eða neytir vímuefna.
Þó að foreldrar þínir geti ekki bannað þér að eiga kærasta nema þeir hafi góða ástæðu til þess þarft þú samt sem áður að fylgja þeim reglum sem gilda á heimili ykkar. Á það til dæmis við um reglur um það hvenær þú átt að koma heim og hvenær kærasti þinn má vera í heimsókn. Foreldrum þínum ber þó að gefa þér tækifæri á að taka þátt í að setja slíkar reglur og taka ríkt tillit til sjónarmiða þinna.
Ef eitthvað er óljóst eða þú ert með fleiri spurningar er þér velkomið að hafa samband aftur.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna