Friðhelgi einkalífs og MSN
stelpa
16
Mamma og pabbi skoðuðu msn samtölin mín, mega þau það? Ég tala mjög mikið um persónulega hluti á msn og svoleiðis, þannig að mér finnst þetta mjög óþæginlegt.
Komdu sæl
Það er því miður ekki hægt að svara þér með einföldu jái eða neii. Þetta mál hefur tvær hliðar sem verður að taka tillit til.
Í ýmsum lögum eru ákvæði til verndar friðhelgi einkalífs. Sem dæmi má nefna að samkvæmt 228. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er refsivert að hnýsast í bréf, skjöl, gögn eða forrit á tölvutæku formi, dagbækur eða önnur slík gögn, sem hafa að geyma upplýsingar um einkamál annars manns, sé það gert án samþykkis viðkomandi og gögnin fengin með brögðum, bréf opnað, farið í læsta hirslu eða beitt annarri áþekkri aðferð. Þá er það einnig refsivert að hnýsast í hirslu annars manns án nægilegra ástæðna. Þessi réttarvernd nær að sjálfsögðu bæði til barna og fullorðinna.
Persónuleg gögn barns, svo sem bréf, dagbækur, minnisblöð o.þ.h. njóta verndar 71. gr. stjórnarskrár og 16. gr. Barnasáttmálans. Það er meginregla að foreldrar hafa ekki leyfi til að opna persónuleg bréf barns síns eða lesa persónuleg gögn, s.s. dagbækur o.þ.h.
Það sem er skrifað á spjallsíður netsins eru opinber gögn og að sjálfsögðu mega foreldrar - eins og allir aðrir - lesa það og afrita. Þó verður að teljast að msn-samskipti flokkist með tölvupóstssamskiptum sem persónuleg samskipti þar sem viðtakandinn (einn eða fleiri) er valinn af sendanda. Það sem lögin segja um bréf hlýtur því að eiga við msn-samskipti.
Þá hefur hins vegar verið viðurkenndur réttur foreldra til að opna bréf barns ef þá grunar að innihald bréfs sé ólöglegt, t.d. innihaldi fíkniefni eða upplýsingar í bréfinu gætu verið skaðlegar fyrir barnið. Foreldrar þínir bera ábyrgð á velferð þinni og til að geta uppfyllt forsjárskyldur sína gætu þau þurft að skoða einkagögn þín.
Að undanförnu hefur verið rætt um aðgerðir til að vernda börn gegn ofbeldis- og klámefni og óheiðarlegu fólki sem notar netið til að kynnast börnum með það í huga að notfæra sér reynsluleysi þeirra. Það eru ekki allir það sem þeir segjast vera enda hefur komið í ljós að samskipti á bloggsíðum og með msn geta reynst börnum hættuleg. Það hefur því verið fullt tilefni til eftirlits foreldra að þessu leyti. Samkvæmt 94. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, ber foreldrum, eftir því sem í þeirra valdi stendur, að vernda börn gegn ofbeldis- og klámefni eða öðru slíku efni, m.a. með því að koma í veg fyrir aðgang þeirra að því. Í þessu sambandi skal það tekið fram að eftirlit af þessu tagi má hins vegar ekki gera með leynd. Það þýðir að ef foreldrar þínir hafa stillt msn-ið þannig að það geymi fyrri samtöl þá hefðu þau átt að láta þig vita.
Tilgangur foreldra þinna með því að skoða msn samtölin þín skiptir því meginmáli. Ef þeir vildu hnýsast í persónuleg mál þín þá er það ekki í lagi en ef þeir hafa áhyggjur af þér og tilgangurinn með því að skoða msn samtölin var að vernda þig þá er það í sjálfu sér ekki bannað. E.t.v. hefðu þau líka geta farið þá leið að ræða málin við þig og fá leyfi til að skoða samtölin þín. Aðalatriðið er að þú á rétt á friðhelgi á heimili þínu og þú átt ekki að þurfa að sæta því að gengið sé um persónuleg gögn þín án leyfis.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna