Framkoma verslunareigenda
stelpa
14
Má reka mig úr búð ef ég er bara að skoða ? Eða labba á eftir mér og horfa á mig í hvert skipti sem ég skoða?
Komdu sæl
Samkvæmt íslenskum lögum þarf hver sá aðili sem býður fram þjónustu sína fyrir almenning í atvinnuskyni að veita þá þjónustu hverjum þeim sem til hans leitar, nema brýnar og málefnalegar ástæður mæli gegn því. Aldur viðskiptavinar getur aldrei talist málefnaleg ástæða, eins og meðal annars kemur fram í 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Þetta þýðir að aldrei má reka fólk út úr búð á grundvelli aldurs, þó það sé bara að skoða. Starfsfólk verslana má heldur ekki elta fólk um búðina eingöngu vegna þess að um börn er að ræða.
Verslanir hafa heimild til að vísa fólki út ef sérstakar ástæður mæla með því, t.d. ef aðili hefur orðið uppvís að þjófnaði eða annarri slíkri háttsemi. Verslunareigandi getur einnig ef sérstakar ástæður mæla með því fylgst með aðilum inni í verslun t.d. ef um er að ræða aðila sem hafa orðið uppvísir að slíkri hegðun.
Gott væri fyrir þig að sýna einhverjum fullorðnum sem þú treystir þetta bréf og síðan getið þið farið saman og rætt við verslunareigandann um ástæður þess að hann hafi rekið þig úr versluninni. Ef þú gefur okkur upp nafnið á versluninni þá gætum við einnig haft samband við verslunareigandann og bent honum á að óheimilt sé að vísa börnum frá verslun án málefnalegrar ástæðu.
Kær kveðja frá skrifstofu umboðsmanns barna