Foreldrar mínir skipa mér að borða
strákur
16
Ég er orðinn 78 kg og 179 cm á hæð. Mig langar ekki að vera svona þungur. Ég er smá fitu á ákveðnum stöðum á líkamanum sem ég vil losna við. Ég fer í ræktina á hverjum degi og brenni a.m.k 700 hitaeiningum í hvert skiptið sem ég fer þangað. En aftur á móti léttist ég ekkert heldur stöðugt fitna ég og þyngist. Þetta gerist því mér er skipað að borða.
Fjölskyldan mín á ekki mikinn pening en samt á ég stöðugt að borða mikla skammta á hverjum degi. Ég hef marg reynt að ræða um þessi mál við foreldra mína að ég sé ekki svo svangur en þau halda samt áfram að skipa mér að borða. Ég veit að samkvæmt landslögum eiga foreldrar/forráðmenn að fæða börnin sín. Mér finnst þetta vera mjög ógeðslegt af foreldrum mínum.
Allir aðrir unglingar þurfa ekki að borða þegar þau eru ekki svöng en ég skal gjöra svo vel að borða þótt að ég sé alls ekki svangur heldur pakk saddur! Mega foreldrar mínir gera þetta?
Komdu sæll
Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna. Í því felst m.a. að tryggja það að börn þeirra borði hollan mat og nærist eðlilega. Foreldrar eiga þó almennt ekki að þvinga börn sín til að borða þegar þau eru södd eða lystarlaus. Í undantekningartilvikum geta aðstæður verið þannig að foreldrar þurfi að sjá til þess að börn þeirra borði, t.d. þegar um átröskunarsjúkdóma er að ræða.
Fagfólk á heilbrigðissviði mælir með því að maður hlusti á líkama sinn og borði sig ekki pakksaddan. Þú gætir rætt þetta við foreldra þína og bent þeim á að þau séu ekki að gera þér gott með því að þvinga þig til að borða. Foreldrum þínum ber að taka mark á þér og virða rétt þinn til að ráða yfir eigin líkama.
Umboðsmaður barna vonar að þú sért ekki að hafa miklar áhyggjur af þyngdinni, sem er eðlileg m.v. hæð. Það er alveg eðlilegt að velta útlitinu fyrir sér en því miður er maður miklu duglegri að finna galla á sjálfum sér en öðrum. Yfirleitt er fólk allt of gagnrýnið á sjálft sig og óhóflega miklar kröfur gera ekkert nema auka sjálfsóánægjuna. Útlitskröfurnar eru oft komnar langt út fyrir það sem flestum finnst eðlilegt og því er vert að hugsa kannski aðeins um það hversu heilbrigðar fyrirmyndir okkar eru. Vertu bara ánægður með sjálfan þig eins og þú ert!
Umboðsmaður mælir með því að þú kíkir á þessa síðu á 6h.is.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna