Erfiðir foreldrar - þunglyndi
Stelpa
13
Er það í lagi að foreldri beiti manni ofbeldi og öskrar á mann stanslaust og einnig tekur af manni síman . Held líka að ég sé að verða þunglynd, ég hef margoft grátið mig til svefns. Þegar fólk sér mig þá ser það mig svo rosalega glaðlynda stelpu ég reyni lika alltaf að fela þunglyndi mína fyrir annað fólk. HJÁLP
Það er mjög leitt að heyra hvernig foreldrar þínir koma fram við þig og hvernig þér líður. Það er gott hjá þér að leita eftir aðstoð.
Það er alls ekki í lagi að foreldrar þínir beiti þig ofbeldi og öskri á þig. Það er heldur ekki í lagi að foreldrar þínir taki af þér símann, nema þeir telji það nauðsynlegt til þess að vernda þig.
Það er hlutverk barnaverndar að hjálpa börnum sem líður ekki vel heima hjá sér. En til þess að barnaverndin geti skoðað málið þarf einhvern að láta hana vita. Það eru nokkrar leiðir til þess:
- Þú getur talað við einhvern fullorðinn sem þú treystir og beðið hann/hana um að hafa samband við barnavernd. Ef þú talar t.d. við kennarann þinn, námsráðgjafann hjúkrunarfræðinginn í skólanum eða einhvern í félagsmiðstöðinni þá eiga þeir að hjálpa þér og hafa samband við barnaverndina. Ef það er einhver annar fullorðinn sem þekkir þig og þú treystir getur þú auðvitað leitað til hans/hennar.
- Þú getur haft samband við barnaverndina sjálf, t.d. með því að hringja í 112 og biðja um barnavernd.
- Við hér hjá umboðsmanni barna getum haft samband við barnaverndina fyrir þig. Þá þarftu að senda okkur meiri upplýsingar um þig.
Hér á vef umboðsmanns barna getur þú lesið um barnavernd. Ef barnavernd skoðar málið mun hún láta foreldra þína vita. Þú ættir þó ekki að láta það stoppa þig, þar sem það er mikilvægt að þú fáir aðstoð.
Það er líka mikilvægt að þú ræðir við einhvern sem þú treystir um það hvað þér líði illa og að þú haldir að þú sért þunglynd. Námsráðgjafinn í skólanum, umsjónarkennarinn þinn eða skólahjúkrunarfræðingurinn eru þeir aðilar í þínu nánasta umhverfi sem gætu aðstoðað þig. Þeir eru bundnir trúnaði og geta hjálpað þér að leysa úr persónulegum erfiðleikum. Þeim, eins og öllum öðrum, ber þó alltaf skylda til að tilkynna barnavernd ef heimilisaðstæður þínar eru óviðunandi.
Hjálparsíminn 1717 er gjaldfrjáls og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu. Þegar þér líður illa skaltu ekki hika við að hringja í 1717.
Hér á vef landlæknis er að finna bækling fyrir unglinga um geðheilsu.
Ekki hika við að hafa samband aftur en þá væri gott að þú myndir senda netfangið þitt til að þú getir fengið persónulegra svar. Þú getur sent tölvupóst á ub@barn.is, sent okkur skilaboð á vefnum eða hringt í síma 800-5999 (gjaldfrjálst númer).