Er svo ótrúlega feimin
stelpa
16
hæhæ.
heyrðu ég veit ekki hvort þetta eigi erindi hérna inn en allt í lagi að prófa :) Ég er semsagt 16 ára stelpa og var svona að spá í hvort að þið hefðuð ekki eithver góð ráð eða gullmola til að hjálpa manni að opna sig. Er svo ótrúlega feimin þori varla að segja nafnið mitt þegar ég er í stórum hópi, samt er mér mjög mikið hrósað og svona en er samt ótrúlga feimin.
Nú ætla ég að taka mig á, lifa lífinu og reyna að opna mig og tala betur við annað fólk. Lumiði á eitthverjum góðum ráðum eða góðum bókum eða eitthvað slíkt :)? Ég ætla nefninlega að taka mig bara á sjálf vil ekki fara til sálfræðings eða eitthvað slíkt því ég veit alveg að ég get opnað mig og verið hress & skemmtileg týpa en þarf bara að leggja mig fram og langar að vita hvort þið hafið eitthver ráð handa mér :D? Fyrirfram þakkir!
Heil og sæl.
Kærar þakkir fyrir að hafa samband við umboðsmann barna.
Til að takast á við feimnina þarf að vinna í að bæta sjálfstraustið. Sumir hafa náð góðum árangri í að bæta sjálfstraustið og losna við feimnina með því að láta sig hafa það að gera það sem þeir myndu í raun heldur vilja sleppa við, eins og að t.d. flytja ræður við ýmis tækifæri. Sumir hafa þannig náð að öðlast sjálfstraust smátt og smátt og á endanum finnst þeim ekkert mál að tala upphátt opinberlega. Þú ert nú þegar búin að taka fyrsta skrefið með því að ákveða að verða opnari.
Það að efla sjálfstraustið getur krafist nokkurra vinnu. Þú gætir prófað að segja t.d. við sjálfa þig upphátt á hverjum degi að þetta eigi eftir að verða frábær dagur og að þú sért flott og klár og getir tekist á við daginn og þau verkefni sem hann kemur með. Þetta hljómar eflaust skrítið en þetta hefur hjálpað sumu fólki. Ræddu við foreldra þína um þessi mál líka, yfirleitt gera foreldrar alltaf sitt besta til að hjálpa börnunum sínum þegar eitthvað bjátar á. Þess vegna skalt þú endilega treysta þeim til að styðja þig eins og þér hentar best.
Það hefur einnig hjálpað mörgum að taka þátt í hvers konar tómstundastarfsemi, eins og t.d. skátum, kór, dansi, íþróttum eða bara hvað það sem hentar og er í boði. Það getur verið auðveldara að kynnast fólki sem hefur sömu áhugamál og maður sjálfur og þá einmitt í gegnum tómstundastarf. Umboðsmaður gerir ráð fyrir að þú sért í framhaldsskóla vegna aldurs þíns. Í flestöllum framhaldsskólum er virkt félagsstarf, t.d. kór, leiklist eða annað sem getur verið góð leið til að kynnast fólki sem er á manns eigin bylgjulengd. Það gæti verið gott fyrir þig að athuga hvaða félagsstarf er í boði í þínum skóla eitthvað sem fellur að þínum áhugamálum.
Varðandi góðar bækur um að takast á við feimni þá er til mikill fjöldi af góðum sjálfshjálparbókum. Þú ættir að athuga hvað er til í bókasafninu í skólanum eða hjá þínu sveitarfélagi. Ef þú átt í vandræðum með að finna bók sem hentar þér þá getur þú leitað eftir upplýsingum í afgreiðslunni.
Umboðsmaður vill einnig benda þér á Tótalráðgjöf (www.totalradgjof.is) en þar getur ungt fólk leitað eftir ráðgjöfum um næstum hvað sem er. Þeir sem þar svara eru með fjölbreytta menntun og þekkingu, eins og sálfræði- og félagsráðgjafamenntun.
Gangi þér sem allra best og mundu að það gengur allt mun betur þegar jákvæðnin er með í för.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna.