Eiga foreldrar mínir ekki að fara með mig til læknis vegna höfuðhöggs?
stelpa
14
Fyrir nokkrum dögum fékk ég höfuðhögg, ég ætlaði að henda mer í gras en lenti með hausinn á kletti og rotaðist í smá stund. Þegar ég fór að segja forledrum minum frá þessu sögu þau alltaf að þetta myndi lagast.
Núna þegar eg skrifa þetta bréf eru liðnir 4 dagar og verkurinn versnar og versnar.. Þegar ég reyni að segja þeim frá þessu þá segja þau mér bara að hætta að tala um þetta, hætta að væla og það sé ekkert að mér og jafnvel öskra á mig! Ég er að drepast í hausnum og verkirnir eru farnir að leiða niður háls og niðrí bak... Hvað get ég gert? er ekki skylda foreldra minna að gera eitthvað í þessu?
Komdu sæl
Þar sem þú segir að höfuðverkir séu að versna og leiða niður í háls og bak er umboðsmaður á þeirri skoðun að foreldrum þínum beri að fara með þig til læknis. Ef þeir eru ófáanlegir til þess átt þú sjálf að geta leitað á heilsugæslustöðina þar sem þú býrð til að fá viðtal hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi. Þó að þú sért 14 ára átt þú sjálf að geta leitað ráðgjafar en ef læknirinn metur það svo að þú þurfir á einhvers konar meðferð að halda þurfa foreldrar þínir að vera með í ráðum en þá er það líka hlutverk læknisins að tala við þau.
Þar sem nú eru liðnir tveir dagar frá því þú skrifaðir bréfið vonum við hjá umboðsmanni barna að afstaða foreldra þinna hafi breyst um helgina. En ef ekki, getur þú sýnt foreldrum þínum þetta svar ef þú vilt eða haft það með þér á heilsugæslustöðina.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna