Dónalegur skólastjóri
strákur
13
Umboðsmanni barna barst fyrirspurn um framkomu og háttsemi skólastjóra grunnskóla, sem fólst meðal annars í því að koma dónalega fram við nemendur og hóta þeim.
Þar sem netfang barst ekki með fyrirspurninni er viðkomandi beðinn um að hafa aftur samband ef hann vill fá nákvæmari svör með tölvupósti.
Komdu sæll
Samkvæmt 12. gr. grunnskólalaga ber skólastjóra sem og öðru starfsfólki skólans að gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart nemendum. Skólastjóri á þannig ávallt að koma fram við nemendur sína af virðingu og er aldrei ásættanlegt að hann geri lítið úr þeim eða hóti þeim.
Sömuleiðis eiga nemendur að koma fram við skólastjóra og aðra starfsmenn skólans af virðingu. Samkvæmt 14. gr. grunnskólalaga ber nemendum að hlíta fyrirmælum starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.
Ef skólastjóri kemur illa fram við nemendur er mikilvægt að foreldrar viti af því. Bæði nemendur og foreldrar geta svo komið kvörtunum á framfæri við skólann og óskað eftir skýringum á framkomu. Í framhaldinu er hægt að hafa samband við skólanefnd í sveitarfélaginu ef ekki gengur að leysa málið innan skólans. Í svona tilvikum getur líka verið gott að láta einhvern starfsmann skólans sem þú treystir vita, t.d. námsráðgjafa, umsjónarkennara eða aðstoðarskólastjóra.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna