Besta vinkonan hætt að tala við mig
stelpa
13
Hæ, hæ ég er 13 ára stelpa sem á við eitt vandamál að stríða. Vinkona mín sem var besta vinkona mín er hætt alveg að tala við mig hún hringir aldrei og getur aldrei leikið og er alltaf að gera einhvað annað. Um daginn hringdi ég í hana og þá sagðist hún að vera að fara að passa litla stelpu. En svo sá ég hana að hanga í sjoppu að tala við vinkonur sínar. Hvað á ég að gera? Á ég að halda áfram að reyna að hafa samband við hana?
Komdu sæl
Svona vinkonu-vandamál geta verið alveg ótrúlega erfið því að vináttan og það að tilheyra hópi jafnaldra hefur mjög mikil áhrif á sjálfstraust og líðan. Það er erfitt hlutskipti að vera útundan og spyrja sig af hverju vinurinn / vinkonan hafi valið sér annan vin. Það getur verið mjög erfitt á þessum árum að halda vinskap, kannski frekar hjá stelpum en strákum. Flestir takast þó á við sorgina og sigrast á henni. Gott er líka að hafa í huga að vináttan getur haldist, þó að átök og togsteita komi stundum upp í vinkonusambandinu. Með vináttu kynnist maður því að verða stundum fyrir vonbrigðum en geta jafnað sig eftir vonbrigði og misskilning og sæst aftur. Kannski væri sniðugt að fá þessa vinkonu þína til að setjast niður með þér og ræða málin, en áður en þú gerir það skaltu ráðfæra þig við einhvern sem þú treystir. Það geta verið foreldrar þínir, eldri systkini, eða bara hver sem er, sem þér finnst gott að tala við. Ef þér líður mjög illa yfir þessu er líka mikilvægt að þú getir talað við einhvern nákominn til að fá huggun og skilning.
Þú getur líka leitað til ýmissa annarra aðila eftir stuðningi, t.d. umsjónarkennara, námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðings. Þá má benda þér á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð i ýmsum málum. Þú þarft ekki að segja til nafns ef þú hringir í hjálparsímann.
En þú skalt líka hafa í huga að það eru til ýmsar leiðir til að eignast nýja vini. Þú gætir t.d. athugað með námskeið, klúbb eða íþróttafélag sem hentar áhugamáli þínu. Það skiptir miklu máli að reyna að vera jákvæð. Námsráðgjafinn í skólanum þínum getur örugglega hjálpað þér með að finna leiðir sem henta þér.
Með kærri kveðju frá umboðsmanni barna