Beitt ofbeldi heima og farin að skera mig
stelpa
14
Já, sko fósturmamma mín lemur mig, ekki með kinnhest, hún hendir mér i vegginn heima, og hendir hlutum í mig, pabbi gerir ekkert við þessu, en stundum þegar hún gengur of langt, þá segir hann stopp, og fer út á bar og drekkur. Ég spurði mömmu hversvegna hún lemur mig svona, og hún segjir bara að mamma hennar hafi lamið hana þegar hún var lítil. Barnavernd talaði einu sinni við hana, og hún laug og sagði að ég væri bara að ljúga, en þegar barnavernd fór, þá trompaðist mamma, hún henti mérí borð, og ég fékk gat á hausinn. Ég þurfti að fara á Landspítalann í Fossvogi, til að láta sauma mig. Ég er byrjuð að skera mig, og mér líður aldrei vel þegar ég tala við mömmu, og svona, en þegar ég sker mig, þá líður mér betur, og öll vandræðin fara í burtu. Hvað á ég að gera með mömmu mína.?
Komdu sæl
Í 28. gr. barnalaga segir: "Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi". Þetta þýðir að ekkert barn á að þurfa að þola ofbeldi, allra síst á heimili sínu. Friðhelgi heimilisins nær ekki til ofbeldis.
Ef fóstur (eða stjúp-) mamma þín lemur þig og meiðir þig þá er það mjög alvarlegt mál. Sjáfsmeiðingarnar gefa líka til kynna að þér líði hræðilega illa “Mamma” þín þarf líklega einhvers konar aðstoð við að vinna úr sínum málum og hún þarf líka að læra að koma fram við þig af virðingu.
Heimilisofbeldi er yfirleitt mjög vel falið leyndarmál og því linnir yfirleitt ekki nema gripið sé til markvissra aðgerða. Þess vegna er mikilvægt að þú talir um þetta við einhvern sem þú treystir. Þú ættir endilega að ræða málin við einhvern innan fjölskyldunnar eins og ömmu, afa eða frændfólk eða einhvern starfsmann skólans (t.d. umsjónarkennarann eða námsráðgjafann) eða félagsmiðstöðvarinnar.
Þó að barnaverndarnefndin hafi tekið mál ykkar fyrir á sínum tíma þýðir það ekkert endilega að það sé ekki hægt að skoða það aftur. Öllum ber skylda til að tilkynna barnaverndarnefnd um vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum. Hér er listi yfir barnaverndarnefndir landsins og upplýsingar hvernig er best að ná í starfsmenn þeirra. Svo er líka hægt að hringja í síma 112 og bera upp erindið við starfsmann Neyðarlínunnar. Hann kemur því á framfæri við rétta aðila eða gefur samband áfram. Þú getur að sjálfsögðu sjálf haft samband við barnaverndarnefnd (112) og sagt þeim frá málavöxtum og beðið um að kannaðar verði aðstæðurnar heima hjá þér á ný.
Oft getur verið gagnlegt að leita ráða hjá fagfólki. Það eru ýmsir sem hægt er að leita til vegna erfiðleika innan fjölskyldna.
-
Fyrst vill umboðsmaður benda þér á Tótalráðgjöfina en hún er ætluð ungu fólki sem vantar ráðgjöf fagfólks í ýmsum málum. Þú getur hringt (s. 520 4600), komið, sent bréf eða tölvupóst til þeirra. Heimasíðan er www.totalradgjof.is.
-
Þá má benda þér á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa hlustun og aðstoð i ýmsum málum.
-
Eins og fyrr segir getur líka verið gagnlegt fyrir þig að ræða við námsráðgjafann eða umsjónarkennarann þinn í skólanum þínum eða starfsmann félagsmiðstöðvarinnar. Þeir eru bundnir trúnaði við þig en ber þó alltaf skylda til þess að tilkynna heimilisofbeldi til barnaverndarnefndar.
-
Nú kemur ekki fram í bréfinu þínu hvar á landinu þú býrð, en þú getur óskað eftir aðstoð hjá félags- eða fjölskylduþjónustu sveitarfélagsins þar sem þú býrð, þar sem væntanlega er boðið upp á fjölskylduráðgjöf – í samstarfi við barnaverndina. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á viðkomandi sveitarfélag kemst þú inn á heimasíðu þíns sveitarfélags. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna.
-
Mörgum finnst líka gott að ræða persónuleg mál við prestinn sinn. Þó að þú þekkir prestinn “þinn” ekki neitt getur þú samt alltaf leitað til hans þegar þér liður illa.
Það eru sem sagt nokkrar leiðir í boði fyrir þig og í raun þitt að velja hvað hentar þér best. Mikilvægt er þó að þú finnir þér einhvern fullorðinn sem þú treystir til að ræða málin við og styðja þig.
Ef þú ert ráðvillt eða vantar meiri upplýsingar skaltu ekki hika við að hafa smaband aftur.
Með von um að ástandið batni.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna