Andlegt ofbeldi og forsjá
stelpa
15
Foreldrar mínir eru hætt saman og búin að vera það í langan tíma. Ég hef alltaf átt heima hjá pabba en farið til mömmu um helgar og svona.
En það var atvik sem gerðist í miðjum janúar '13. Það var þannig í raun að móðir mín beitti mig andlegu ofbeldi í miklu magni, öskrandi til mín í líklegast svona klukkutíma, einn og hálfan og ég endaði á því að hlaupa grátandi út. Ég hitti hana svo viku seinna í afmæli ömmu minnar en ég flúði það að vera nálægt henni allan tímann.
Nú þegar það eru að skjótast upp hugmyndir í kollinn minn er ég hrædd um að hún geti krafist eitthvers, sem gæti verið bundið því að hún hefur ennþá forræði yfir mér. Er möguleiki á því að ég geti óskað eftir því að hún verði svipt forræðinu?
Komdu sæl
Í fyrirspurn þinni til umboðsmanns barna segir þú frá því að mamma þín hafi beitt þig andlegu ofbeldi.
Það er leitt að heyra hvernig mamma þín kom fram við þig. Það gæti verið gott fyrir þig að segja pabba þínum eða einhverjum öðrum fullorðnum sem þú treystir frá þessari framkomu mömmu þinnar.
Ef þú treystir þér til þess gæti líka verið gott fyrir þig að ræða við mömmu þína og segja henni hvernig þér líður. Það gæti til dæmis verið gott að hafa einhvern fullorðinn með þér t.d. pabba þinn, ömmu, afa eða einhvern annan sem þú treystir. Það gæti líka verið góð hugmynd að fara í fjölskylduráðgjöf, en slík ráðgjöf er í boði ókeypis í mörgum sveitarfélögum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög og heimasíður þeirra.
Í fyrirspurn þinni spyrð þú hvort þú getir óskað eftir því að mamma þín verði svipt forsjá yfir þér. Svarið við því er nei, þar sem það eru foreldrar sem þurfa að taka ákvarðanir um forsjá og umgengni.
Þar sem þú átt heima hjá pabba þínum geri ég ráð fyrir að foreldrar þínir fari sameiginlega með forsjá yfir þér. Það þýðir í raun að foreldrar þínir bera saman ábyrgð á þér. Þú þarft því ekki að hafa áhyggjur af því að mamma þín geti gert einhverjar kröfur eða tekið ákvarðanir um þig, nema með samþykki pabba þíns. Báðir foreldrar þínir eiga auk þess að hlusta á skoðanir þínar og taka tillit til þeirra. Þar sem þú ert orðin 15 ára ætti vilji þinn að hafa mikil áhrif á allar ákvarðanir sem eru teknar um þig.
Ef þú vilt ekki umgangast mömmu þína er mikilvægt að þú látir pabba þinn vita. Þar sem þú ert orðin 15 ára átt þú rétt á því að ráða mestu um það hvort og þá hvenær þú umgengst mömmu þína. Þú getur líka sett skilyrði fyrir umgengni t.d. gert kröfu um að hún komi betur fram við þig. Til dæmis gætir þú gert það að skilyrði að þið farið saman í fjölskylduráðgjöf.
Ef að þú ert með fleiri spurningar eða vantar ráðleggingar er þér alltaf velkomið að hafa samband aftur. Þú getur annað hvort svarað þessum tölvupósti eða hringt í 800-5999 (gjaldfrjálst).
Gangi þér vel!
Kær kveðja frá umboðsmanni barna