Andlát í fjölskyldunni
strákur
13
Blehh..! Hérna sko.. Kona afa míns var að deyja í nótt og mér líður ekkert svakalega vel..! Ég er svona nokkurnveginn hættur að trúa á Guð. Hvað í ósköpunum á ég að gera :(?
Komdu sæll
Það er alveg eðlilegt að líða illa þegar einhver nákominn deyr. Einstaklingar bregðast misjafnlega við þegar þeir verða fyrir erfiðri lífreynslu eins og andláti einhvers nákomins. Það er sagt að öll viðbrögð við sorg séu eðlileg. Sumir fara strax í mikil sorgarviðbrögð og gráta mikið á meðan aðrir taka sér langan tíma í að átta sig á missinum. Þú sjálfur og fólkið í kring um þig sýnir líklega mismunandi sorgarviðbrögð og það er allt í lagi með það. Hvort sem fólk trúir á Guð eða ekki þá skiptir mestu máli að vera ekki feiminn að ræða um þann sem er dáinn eða sorgina almennt og að vera tillitssamur við þá sem hafa misst ástvin.
Yfirleitt finnst fólki gott að ræða um hlutina við einhvern sem maður treystir. Flestum finnst gott að tala við einhvern sem þekkir mann vel eins og t.d. einhvern úr fjölskyldunni. Svo eru líka ýmsir utanaðkomandi aðilar sem geta hjálpað.
Fyrst ber að nefna umsjónarkennarann og námsráðgjafann í skólanum. Þeir geta hjálpað krökkum með ýmis mál. Svo getur þú líka alltaf hringt í Hjálparsímann 1717.
Vonandi hjálpar þetta eitthvað.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna