Af hverju mega krakkar ekki kaupa tóbak?
strákur
15
Af hverju mega ekki 15 ára krakkar kaupa tóbak í búðum?
Komdu sæll
Samkvæmt lögum um tóbaksvarnir má hvorki selja né afhenda einstaklingum yngri en 18 ára tóbak. Markmið laganna er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks.
Ákvæði sem banna tóbakssölu til barna eru allvíða í lögum í nágrannalöndum okkar. Ákvæðið er í reynd opinber staðfesting á því viðhorfi stjórnvalda að nauðsynlegt sé að hamla gegn því að menn byrji að reykja. Jafnframt styðst það við niðurstöður fjölmargra rannsókna sem sýna að hættulegast er að byrja reykingar á barns- og unglingsárum.
Á vef Landlæknis er heilmikill fróðleikur um tóbaksvarnir. Lestu t.d. þessa grein. Í lok hennar segir:
Staðreyndin er að það er mjög erfitt að finna jákvæðar hliðar tóbaksneyslu.
Neikvæðu hliðar neyslunnar eru hins vegar svo uggvænlegar að það nægir að nefna að af hverjum 1000 sem reykja munu liðlega 500 deyja af völdum reykinga - þar af 250 langt um aldur fram.
Það má hins vegar búast við að ungt fólk sé opnara fyrir skammtímaáhrifum neyslunnar og má þar meðal annars nefna peningasóun, minna þol og úthald, andfýlu og vonda lykt af húð og fötum.
Að lokum skal bent á að munntóbaksnotkun er einnig ávanabindandi og ólögleg á Íslandi. Það eru margir sem gera sér ekki grein fyrir því að munntóbaksnotkun felur í sér alveg jafn mikla fíkn í nikótín og reykingar.
Fyrir utan þjáningar þeirra sem hafa skaðað eigin líkama með því að reykja, verður líka að huga að slæmum áhrifum óbeinna reykinga á fólk sem og þeim gríðarmikla kostnaði fyrir ríkið sem hlýst af meðhöndlun þeirra sem eru búnir að missa heilsuna vegna reykinga. Ef hægt væri að draga úr heilsutjóni vegna tóbaks, væri e.t.v. hægt að nota peningana í eitthvað annað, t.d. í þágu barna og unglinga.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna