Af hverju mega börn eignast börn?
stelpa
17
Af hverju mega börn eignast börn??!!!!!
Komdu sæl
Það er auðvitað ekki æskilegt að unglingar yngri en 18 ára, sem í lagalegum skilningi eru börn, eignist börn. Ekkert í lögum bannar það að börn eignist börn, enda væri slíkt bann algerlega úr takt við raunveruleikann og myndi brjóta gegn friðhelgi einkalífs fólks, t.d. réttinum til að ráða yfir eigin líkama. Börn eiga að njóta friðhelgi einkalífs. Þó að forsjá foreldra geti takmarkað þennan rétt að einhverju leyti er ekki réttlætanlegt að neyða stúlku í fóstureyðingu gegn vilja sínum.
Það er ekkert sem segir að ungir foreldrar séu endilega verri en þeir eldri. Æskan er hins vegar sérstakur tími og unglingar ættu helst að fá að njóta þess að læra og þroskast án þess að þurfa að sinna þeim skyldum sem foreldrahlutverkið hefur í för með sér. Að eignast barn og ala það uppgetur tekið virkilega á og mun taka mikinn tíma. Þetta er jú 18 ára ábyrgð.
Foreldrahlutverkið er eitt mikilvægasta verkefnið okkar og fólk ætti að sinna því heilshugar þegar það hefur þroska, tíma, stöðugleika og þolinmæði til þess. Ungir foreldrar eiga það á hættu að detta úr námi og missa tengslin við vini sína. Það er ekki gott að ala upp barn og hafa það á tilfinningunni að maður sé að missa af einhverju með félögunum.
Kynlífi með öðrum fylgir alltaf ábyrgð og ákveðin áhætta. Í þessum málum verður því hver og einn að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, axla ábyrgð á sjálfum sér og kynna sér getnaðarvarnir, sjá nánar hér.
EF stúlka verður ólétt þarf hún mjög mikla aðstoð og skilning frá sínum nánustu og samfélaginu. Þá þarf heilsugæslan (mæðraverndin), skólinn og e.t.v. líka félagsþjónustan að vinna með henni til að allt gangi sem best.
Kveðja frá umboðsmanni barna