Vond framkoma samnemanda
stelpa
12
Það er ein stelpa í skólanum sem er ekkert sérstaklega skemmtileg. Hún kemur illa fram við mig og rífur kjaft við mig án þess að ég hafi sagt orð við hana eða gert henni eitthvað, einfaldlega útaf því að ég er ekki eins "kúl" og hún. Hún lætur mér líða virkilega illa. Svo segi ég örðum þetta sem þekkja hana líka og þeir segja bara, "ekki taka mark á henni, þetta er bara hún." En mér finnst persónulega að hún EIGI ekki að vera svona. En það versta við þetta er að vinkona mín sem ég er að reyna vera sem mest með, er farin að vera með henni í frímó. Svo að ég get ekkert verið með henni. Geturðu gefið mér einhvað ráð ?
Komdu sæl
Umboðsmaður barna er alveg sammála þeim sem segja þér að taka ekki mark á þessari stelpu. Þegar fólk kemur illa fram við aðra lýsir það yfirleitt vanlíðan þeirra sjálfra en ekki vanköntum hinna sem árásirnar beinast að. Þú skalt reyna að taka þetta ekki nærri þér.
Svona vinkonu-vandamál geta verið alveg ótrúlega erfið því að vináttan og það að tilheyra hópi jafnaldra hefur mjög mikil áhrif á sjálfstraust og líðan. Með vináttu kynnist maður því að verða stundum fyrir vonbrigðum en geta jafnað sig eftir vonbrigði og misskilning og sæst aftur. Kannski væri sniðugt að fá vinkonu þína til að setjast niður með þér og ræða málin, en áður en þú gerir það skaltu ráðfæra þig við einhvern sem þú treystir. Það geta verið foreldrar þínir, eldri systkini, kennari, námsráðgjafinn eða bara hver sem er, sem þér finnst gott að tala við. Ef þér líður mjög illa yfir þessu er líka mikilvægt að þú getir talað við einhvern nákominn til að fá huggun og skilning.
Ef þessi stelpa heldur áfram að koma svona illa fram við þig eða skilja þig útundan og vinkonur þínar gera ekkert í því þá er kominn tími til að ræða málið við umsjónarkennarann eða námsráðgjafann í skólanum. Ef þetta er einelti þá ber skólanum að taka á því í samræmi við eineltisáætlun skólans.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna