Vinna með skóla
stelpa
15
Er leyfilegt að fara að vinna árið sem að maður verður 16 ára. Málið er að ég er 15 ára og verð ekki 16 fyrr en í september + ég bý út á landi. Ég ætlaði að spyrja hvort ég mætti ekki vinna með skólanum til að eiga peninga fyrir framhaldsnámi því fjölskyldan mín á ekki beint mikla peninga. En það er ekki mikið úrval hér það er bara búð/sjoppa, mjólkursamsala, sundlaug og svo hótel. En takk samt vona að fá svar fljótlega.
Komdu sæl
Í vinnuverndarlöggjöfinni er sérstaklega fjallað um vinnu barna og unglinga. Þar kemur fram að börnum sé almennt ekki heimilt að vinna. Þarna er um að ræða börn að 15 ára aldri eða sem eru ennþá í skyldunámi. Nokkrar undantekningar eru þó nefndar frá þeirri meginreglu, m.a. sú að börn sem hafi náð 13 ára aldri megi vinna við störf af léttara tagi í takmarkaðan stundafjölda á viku. Reglum um vinnu barna og unglinga var breytt fyrir nokkrum árum, en þá voru þær hertar talsvert mikið með áherslu á öryggi barna og unglinga og andlegt og líkamlegt heilbrigði þeirra. Þú ættir að hafa samband við Vinnueftirlit ríkisins til að fá upplýsingar um hvort þau störf sem þér standa til boða teljist störf af léttara tagi. Nánari reglur varðandi þessa hluti er að finna í reglugerð um vinnu barna og unglinga, nr. 426/1999.
Þar sem þú ert ennþá í grunnskóla er mikilvægt að hafa í huga að námið verður að ganga fyrir vinnu, enda er nám talin full vinna. Það er í fínu lagi að vinna eitthvað með skólanum en það má ekki bitna á náminu hjá þér eða mætingu í skólann.
Á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is getur þú nálgast frekari upplýsingar um þessi mál.
Með bestu kveðju
frá umboðsmanni barna