Vinna með námi í grunnskóla
stelpa
13
Ég verð 14 ára í ágúst og langar ofboðslega mikið að vinna með náminu og foreldrar mínir samþykkja það en ég veit ekki hvort það má og þá hvar það má ??
Komdu sæl
Í fyrirspurn þinni til umboðsmanns barna segir þú frá því að þig langi að vinna með skóla og spyrð hvort og þá hvar það megi.
Almennt er litið á nám í grunnskóla sem fulla vinnu og talið æskilegt að börn noti þær stundir sem sem þau eig lausar til hvíldar og tómstunda. Er meginreglan því sú að ekki megi ráða börn yngri en 15 ára til vinnu. Þó má víkja frá þeirri reglu í eftirfarandi tilvikum:
• Börn sem náð hafa 14 ára aldri má ráða til léttari starfa. Dæmi um létt störf eru t.d. létt skrifstofustörf, létt fiskvinnslustörf án véla, sala dagblaða, létt verslunarstörf en þó ekki við afgreiðslukassa.
• Börn má ráða til þátttöku í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Sá sem ræður börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri skal afla leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur.
• Börn sem eru 14 ára eða eldri má ráða til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
Þú gætir prófað að sækja um létt störf sem að henta þér á borð við þau sem nefnd eru hérna að ofan. Umboðsmaður barna leggur þó áherslu á að þú sinnir skólanum og hafir nægan frítíma til þess njóta þess að gera það sem þér finnst skemmtilegt. Það er nægur tími til þess að vinna í framtíðinni.
Þú getur lesið meira um vinnu barna og unglinga hér á síðu umboðsmanns barna.
Ef þú ert með fleiri spurningar skaltu endilega hafa samband aftur. Þú getur annaðhvort svarað þessum tölvupósti eða hringt í síma 800-5999.
Gangi þér vel!
Kær kveðja frá umboðsmanni barna