Vinna barna
Foreldrar mínir vilja ekki að ég skipti um vinnu. Má ég ráða hvar ég vinn?
Ég er 15 ára og vil ráða hvar ég vinn. En foreldrar mínir vilja ekki að ég skipti um vinnu. Eru einhver lög sem segja að börn megi ráða hvar þau vinna?
Foreldrum þínum ber að gæta hagsmuna þinna. Foreldrar barna og unglinga hafa skyldum að gegna þegar barnið eða unglingurinn fer út á vinnumarkaðinn. Hér er fyrst og fremst um ákveðið eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk að ræða. Samþykki foreldra þarf til að ráðningarsamningur barns undir 18 ára aldri sé skuldbindandi fyrir barnið.
Það eru líka ákveðnar takmarkanir á því hvaða störfum unglingar á aldrinum 15-17 ára mega sinna. Unglinga er almennt heimilt að ráða til vinnu nema um sé að ræða störf við eftirfarandi aðstæður:
- Vinnu sem líklega er ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra.
- Vinnu sem líklega veldur varanlegu heilsutjóni.
- Vinnu þar sem hætta er á skaðlegri geislun.
- Vinnu þar sem fyrir hendi er slysahætta sem gera má ráð fyrir að börn og unglingar geti átti í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun.
- Vinnu sem felur í sér hættu fyrir heilsu þeirra vegna óvenjumikils kulda, hita, hávaða eða titrings.
- Vinnu þar sem hætta er á ofbeldi eða annarri sérstakri hættu, nema ungmennin starfi með fullorðnum.
Í reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga er að finna í viðauka 1–3 lista yfir hættuleg tæki, verkefni, efni og störf þar sem óheimilt er að ráða unglinga í vinnu.
Yfir sumartíman mega þeir sem eru 15 ára og enn í skyldunámi vinna í 8 klst. á dag og 40 klst. á viku.
Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga er fjallað um þessi málefni. Hér á vef Vinnueftirlitsins er að finna upplýsingar og fræðsluefni um vinnu barna og unglinga.
Gangi þér vel.