Vinna 12 ára?
Má ég vinna ef ég er 12 ára?
Takk fyrir erindið. Í stuttu máli er svarið nei, það gilda ákveðnar reglur um vinnu barna. Almennt séð þá má ekki ráða börn sem eru í skyldunámi til vinnu en þó eru ýmsar undantekningar og þá þarf barn að vera orðið þrettán ára.
- Börn má ráða til þátttöku í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Sá sem ræður börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri skal afla leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur.
- Börn sem eru 14 ára eða eldri má ráða til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
- Börn sem náð hafa 14 ára aldri má ráða til léttari starfa og börn sem náð hafa 13 ára aldri má ráða til léttari starfa í takmarkaðan stundafjölda, svo sem léttari garðyrkju- og þjónustustörf eða önnur hliðstæð störf.
Ef þú vilt lesa meira um vinnu barna þá eru ýmsar góðar upplýsingar á vefsíðu Vinnueftirlitsins .
Góðar kveðjur frá umboðsmanni barna.