Vinkonu strítt í skólanum
Komdu sæl
Það er leiðinlegt að heyra að krakkarnir í skólanum séu alltaf að stríða vinkonu þinni. Það er samt gott að vita að þú stendur með henni - eins og góðar vinkonur gera. Þið getið í rauninni farið nokkrar leiðir til að vinna að því að eineltinu linni.
Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að foreldrar henni viti um ástandið og líðan hennar í skólanum. Svo eru nokkrir aðilar innan skólans sem eiga að geta hjálpað ykkur. Umsjónarkennarinn á, samkvæmt lögum, að hjálpa nemendum að leysa úr persónulegum vanda og hann/hún getur jafnframt tekið á stríðninni hjá hinum, e.t.v. í samstarfi við annað starfsfólk skólans. Kannski getur líka verið gott að ræða við námsráðgjafann í skólanum, en hann/hún hjálpar einnig nemendum með persónuleg mál, eða skólahjúkrunarfræðinginn. Þetta fer eiginlega eftir því hverjum þið treystið helst til að taka á málinu af alvöru. Þið eigið líka að geta rætt þetta við skólastjórann.
Regnbogabörn eru samtök sem vinna gegn einelti og hjálpa þeim sem orðið hafa fyrir einelti. Heimasíðan er www.regnbogaborn.is. Þar eru nánari upplýsingar um þjónustuna sem veitt er þar (t.d. viðtöl og ráðgjöf).
Olweusarverkefnið gegn einelti er með heimasíðuna www.olweus.is. Þorlákur H. Helgason er framkvæmdastjórinn. Hann getur gefið góð ráð til þeirra sem hafa reynslu af einelti. Hægt er að hafa samband við Þorlák í síma 894 2098 eða í tölvupóstfanginu thorlakur@khi.is.
Gangi ykkur vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna