Vinkona mín hætti að tala við mig.
Vinkona mín hætti að tala við mig og vill ekki leika eftir skóla. Hún segir særandi hluti við mig og hlær að mér. Veit ekki hvað ég á að gera.
Hæ. Ég veit ekki hvernig ég get orðað þetta í stuttu máli en þetta er þó allavega eitthvað. Ég átti bestu vinkonu og við töluðum um allt og treystum hvor annari en í vor bara allt í einu hætti hun að tala við mig og hætti að vilja að leika eftir skóla og bara vildi ekki einu sinni horfa á mig, vildi hún ekki vera hjá mér og fór alltaf bara í burtu. Ég er búin að spurja hana af hverju hún vill ekki tala við mig en þá varð hún bara enn þá pirraðari. Núna í haust fór ég að leika við núna bestu vinkonu hennar og þá varð hún aftur ósátt en gerði samt ekki neitt. Hún kom svo til mín um daginn og spurði af hverju ég væri að plokka augnhárin mín svona mikið þannig að ég væri með langt á milli augabrúnanna en málið er að ég plokka ekki og ég sagði henni það og þá sagði hún særandi hluti, hló og lét vinkonur sínar hlæja líka með henni. Ég varð svo sár að ég get ekki sagt neinum af því að hún mun örugglega bara versna. Ég gleymdi að segja það í byrjun að mamma hennar og pabbi hennar voru að skilja núna í ágúst. Ég reyndi að hjálpa henni í gegnum það en hún ýtir mér alltaf í burtu aftur. Hún segir að ég eigi lélegan síma af því að hún fékk nýjan fyrir 20 dögum. HJÁLP ég veit ekki hvað ég á að gera.
Svar umboðsmanns barna.
Hæ.
Það er ekki skemmtilegt að lenda í rifrildi við vinkonu sína og leitt að heyra að hún hafi hætt að tala við þig. Í öllum samskiptum geta hins vegar komið upp snúin vandamál sem eru oftast vegna einhvers misskilning og í vináttu kynnist maður því að verða stundum fyrir vonbrigðum. Maður kynnist því hins vegar líka að jafna sig fljótt eftir vonbrigði og misskilning og að vinir sættast aftur. Skilnaður foreldra hennar gæti haft áhrif á það hvernig hún kemur fram við þig þannig að þú skalt ekki taka því persónulega. Fólk bregst mismunandi við áföllum í lífinu og kannski er hún ekki tilbúin til að ræða um þetta við neinn ennþá.
Þú ættir líka að hafa í huga að vináttan getur haldist, þó að það komi stundum ágreiningur upp í vinkonusambandinu. Vissulega verða stundum vonbrigði í vináttunni en það er hægt að jafna sig og sættast aftur. Það væri kannski sniðugt að fá vinkonu þína til að setjast niður með þér og ræða ykkar mál saman, það væri þó gott ef þú myndir ráðfæra þig fyrst við einhvern sem þú treystir. Það geta verið foreldrar þínir, eldri systkini, eða bara hver sem er, sem þér finnst gott að tala við. Ef þér líður mjög illa yfir þessu er líka mikilvægt að þú getir talað við einhvern nákominn til að fá huggun og skilning.
Þú getur líka leitað til ýmissa annarra aðila eftir stuðningi, t.d. umsjónarkennara, námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðings. Þá má benda þér á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð i ýmsum málum. Þú þarft ekki að segja til nafns ef þú hringir í hjálparsímann.
Gangi þér vel.
Góðar kveðjur frá umboðsmanni barna