Vinavandamál
stelpa
13
Ég var að pæla...maður sér soldið mikið að svona vina vandamálum. Getur maður kannski sótt um t.d. bara send þér (Umboðsmaður Barna) kannski tölvupóst og gefið upp kennitölu svo að engir perrar séu að ná í þetta og þú getur kannski fundið einhverja persónu sem vantar vin og tengd þá til dæmis :) ?? Endilega svara :D
Komdu sæl
Fín hugmynd hjá þér en umboðsmaður barna getur því miður ekki haft milligöngu um að para saman hugsanlega vini og vinkonur. Það eru hins vegar ýmsar aðrar leiðir færar fyrir krakka til að kynnast krökkum. Það er auðvitað misjafnt hve mikið er í boði eftir landshlutum en hér að neðan eru taldir upp nokkrir möguleikar þar sem hægt er að kynnast krökkum með svipuð áhugamál:
-
Félagsmiðstöðin - þar starfa oft ýmis konar klúbbar og félög
-
Íþróttir - þú gætir athugað hvort þú hafir áhuga á einhverju sem íþróttafélögin í nágrenninu bjóða uppá
-
Listir - er leiklist, danslist, myndlist eða tónlist eitthvað fyrir þig?
-
Námskeið - tómstundaskólar og námsflokkar bjóða upp á fjölbreytt úrval námskeiða
-
Kórastarf
-
Kirkjustarf
-
Skátastarf
-
Pennavinir
Eins og í flestu öðru þá gengur yfirleitt betur að eignast vini ef maður er jákvæður, opinn og ekki of fljótur að dæma fólk úr leik.
Það er mjög erfitt fyrir krakka að eiga ekki góða vini og því er mikilvægt að börnin geti rætt málin við einhvern fullorðinn sem þeir treysta, t.d. foreldra. Í grunnskólum starfa yfirleitt ýmist náms- og starfsráðgjafar eða skólafélagsráðgjafar. Þetta fólk er menntað til að hjálpa nemendum sem eiga í alls konar vandræðum, stórum sem smáum (sama hvort vandamálin tengjast náminu sjálfu eða ekki). Það gæti verið sniðugt fyrir krakka sem eiga í vandræðum í sambandi við vinina að leita ráða hjá ráðgjafanum í skólanum þínum. Einnig geta (og eiga samkvæmt lögum) umsjónarkennarar að hjálpa nemendum sínum að leysa svona persónulega vanda.
Gangi þér vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna