Vill minni umgengni
strákur
14
Hæ. Mig langar að vita hvort ég geti sleppt eða neitað að fara til pabba alltaf þegar ég á að fara til hans. Stundum langar mig ekki að fara og vill vera hjá mömmu í staðinn.
Komdu sæll
Það er réttur þinn að umgangast reglulega báða foreldra þína eftir skilnað. Það er líka bæði réttur og skylda þess foreldris sem þú býrð ekki hjá að rækta samband sitt við þig.
Ef þú ert ekki sáttur við það hvernig umgengninni er háttað skaltu endilega segja foreldrum þínum frá því. Ef þér líður ekki nógu vel á öðrum hvorum staðnum eða finnst vont að vera mikið á flakki milli heimila er mikilvægt að foreldrar þíni viti af því. Þau eiga að hlusta á þig og taka réttmætt tillit til skoðana þinna. Í barnalögum segir í 6. málsgrein 28. greinar:
Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.
Kannski væri hægt að breyta umgengninni þannig að hún hentaði þér betur. Ef þau eru ekki sammála hvernig er best að hafa umgengnina þá aðstoðar sýslumaðurinn þau að ná sáttum. Ef það gengur ekki getur sýslumaður ákveðið hvernig umgengnin á að vera. Sýslumaður ræðir oft við börn til að fá fram skoðanir þeirra á umgengni og eftir því sem börnin eru eldri því meira á að fara að vilja þeirra.
Þú ert ekki að svíkja neinn með því að segjast vilja breyta fyrirkomulaginu. Það er alveg skiljanlegt að unglingar vilji fá að hafa meira að segja um umgengina og breyta henni þannig að hún henti þeim betur.
Hér er umfjöllun um skilnað foreldra. Þar er líka fjallað um umgengni barna og foreldra.
Ef þér líður illa út af þessu og vilt ræða málin við einhvern hlutlausan vill umboðsmaður benda þér á námsráðgjafann í skólanum.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna
* Uppfært: Umboðsmaður barna vill vekja athygli á því að nú geta börn geta beðið sýslumann um að boða foreldra þess til fundar til að ræða óskir barnsins um breytingar á fyrirkomulagi forsjár, lögheimilis, búsetu eða umgengni.Áður en foreldrar eru boðaðir til samtals á að gefa barninu kost á viðtali með fagaðila sem aðstoðar það við að koma eigin sjónarmiðum á framfæri við foreldra.
Barn getur haft samband við sýslumann með því að hringja eða senda tölvupóst eða koma við á skrifstofu sýslumanns og biðja um samtal.
Hér má finna nánari upplýsingar um þetta:: https://island.is/rettur-barns-til-thess-ad-leita-til-syslumanns