Vika - vika eða önnur hver helgi í umgengni?
strákur
13
Mig langar að vita hvort það sé betra að vera eina og eina viku til skiptis hjá foreldrum mínum eða aðra hvora helgi? Hvort er mælt með svona almennt?
Komdu sæll
Það er ekki algengt að börn séu viku og viku til skiptis hjá foreldrum sínum en þróunin er kannski sú að fleiri foreldrar velja þennan kost fyrir börnin sín nú en áður.
En er vika - vika betri en önnur hver helgi?
Það er erfitt að svara spurningu þinni á einfaldan hátt þar sem það er aðstæður barna eru mjög mismunandi. Þetta verður alltaf að meta út frá því hve vel barnið tekur breytingum, aldri þess og þroska. Sum börn eru fljót að aðlagast og líður vel með að skipta reglulega um heimili. Öðrum finnst erfiðara að skipta um aðstæður og hentar betur eiga eitt aðal-heimili og fara svo í helgarumgengni til hins foreldrisins. Einnig skiptir mjög miklu máli hvort foreldrarnir búi nálægt hvort öðru og hvort þau eigi góð samskipti.
Almennt séð má segja að það sem mæli með því að barn búi viku og viku til skiptis hjá foreldrum sínum séu hlutir eins og t.d.:
- Að barnið eigi auðvelt með að skipta um umhverfi.
- Að barninu líði jafn vel hjá báðum foreldrum.
- Að barnið sé í góðu sambandi við þá sem búa á báðum heimilum foreldranna, eins og t.d. maka (kærustu/kærasta) og börn þeirra.
- Að foreldrarnir séu báðir sáttir við að barnið fari á milli heimila í viku og viku.
- Að foreldrarnir búi í sama hverfi eða nálægt hvort öðru þannig að barnið gangi í einn skóla og eigi auðvelt með að umgangast vini sína og stunda áhugamál sín frá báðum heimilum.
- Að foreldrar séu góðir vinir og hugsi alltaf fyrst og fremst um að hafa hlutina þannig að barninu líði sem best.
En það er mikilvægt að hafa í huga að það eru foreldrarnir sem eiga að ræða málin og ákveða hvað er best fyrir barnið þeirra. Ef foreldrarnir eru ekki sammála þá getur sýslumaðurinn hjálpað þeim að ákveða hvernig fyrirkomulagið eigi að vera. Barnið sjálft á rétt á að segja hvað því finnst og foreldrar og aðrir eiga að taka aukið mið af vilja barnsins eftir því sem það þroskast og hefur sterkari skoðun á málinu. Barnið á samt ekki að standa í því að miðla málum og reyna að sætta báða foreldra.
Barn á rétt á að vera með því foreldri sem það býr ekki hjá, bæði reglulega og á hátíðum og í sumarleyfum. Það er mjög misjafnt hvernig umgengni er háttað en talað er um að það sé almennt séð lágmark að börn umgangist það foreldri sem það býr ekki hjá aðra hvora helgi. Það væri kannski líka hægt að skoða öðruvísi fyrirkomulag eins og t.d. aðra hvora helgi og einhverja vikudaga til viðbótar. Þetta fer allt eftir barninu, samskiptum foreldra, vegalengd á milli heimilana o.fl.
Vissulega er þetta ekki svarið sem þú varst að biðja um en því miður er ekki hægt að svara þessu öðruvísi.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna
* Uppfært: Umboðsmaður barna vill vekja athygli á því að nú geta börn geta beðið sýslumann um að boða foreldra þess til fundar til að ræða óskir barnsins um breytingar á fyrirkomulagi forsjár, lögheimilis, búsetu eða umgengni.
Áður en foreldrar eru boðaðir til samtals á að gefa barninu kost á viðtali með fagaðila sem aðstoðar það við að koma eigin sjónarmiðum á framfæri við foreldra.
Barn getur haft samband við sýslumann með því að hringja eða senda tölvupóst eða koma við á skrifstofu sýslumanns og biðja um samtal.
Hér má finna nánari upplýsingar um þetta:: https://island.is/rettur-barns-til-thess-ad-leita-til-syslumanns