Var nauðgað
stelpa
17
Hvað get ég gert ef mér hefur verið nauðgað og vil ekki kæra og líður samt ílla og vil ekki segja mömmu og pabba ??
Komdu sæl
Mikið er gott hjá þér að leita þér aðstoðar. Þú sýnir mikinn kjark.
Þó að það virðist óyfirstíganlega erfitt mælir umboðsmaður barna samt með því að þú segir foreldrum þínum frá nauðguninni. Þau bera ábyrgð á velferð þinni og til að þau geti hjálpað þér og sýnt þér þann stuðning sem þú þarft á að halda þá verða þau að vita hvað er í gangi.
Umboðsmaður barna mælir með því að þú hafir samband við Eyrúnu sem vinnur á Neyðarmóttöku vegna nauðgana á Landspítalanum. Síminn er 543 2094 og netfangið er eyrunj@landspitali.is. Ef hún svarar ekki strax í símann getur þú hringt í 543 2019 en þá svarar vaktstjóri hjúkrunar sem getur væntanlega aðstoðað þig áfram.
Einnig viljum við mæla með því að þú hafir samband við Stígamót en það eru samtök sem eru opin öllum þeim sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi og aðstandendur þeirra. Stígamót veita stuðning við að ræða ofbeldið, rifja það upp og setja það í orð, en það eru fyrstu skrefin í að ná tökum á afleiðingum ofbeldisins á sjálfsmynd og sjálfsvirðingu þolenda. Fólk ræður sjálft ferðinni, hve mikinn stuðning það vill og í hve langan tíma. Heimasíðan er www.stigamot.is og síminn er 562-6868 og 800-6868.
Loks bendum við á upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi hér á síðu umboðsmanns.
Þér er velkomið að hafa samband aftur. Gangi þér sem allra best.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna