Vanlíðan og einelti
Hæ. Ég þarf hjálp, hef lent í miklu einelti og líður illa. Kvíðir því að byrja aftur í skólanum.
Hæhæ. Ég þarf hjálp. Síðustu skólaönn lenti ég í miklu einelti. Ég var hunsuð, það vildi engin tala við mig, ég spurði manneskjur hvort þær hötuðu mig og þær sögðu allar já, ég er búin að tala við skólasálfræðinginn og hún hjálpaði mér með andlegan líðan en ekkert með eineltið, i vetur og vor hugsaði ég yfir 10 sinnum að það væri bara best að enda þetta og þá þarf ég ekki að þjást. Núna i sumar hélt þetta bara áfram ég fékk skilaboð að það væri öllum sama um mig, eg ætti að drepa mig, það vill engin sjá þig, þu ert einskis virði og fleira i þessa átt. Í sumar hugsaði eg 100000 sinnum að enda líf mitt og þá væru allir glaðir. Fjölskyldulífið hefur verið erfitt og ég get þetta ekki lengur. Ég er greind með kvíða og er þess vegna með mikinn kvíða að byrja i skólanum aftur núna. Hvað á ég að gera?
Svar umboðsmanns:
Hæhæ og takk fyrir póstinn, gott hjá þér að leita til umboðsmanns barna.
Það er leitt að heyra að þú hafir upplifað það einelti sem þú lýsir og að þér líði svona illa. Það er mjög mikilvægt að þú fáir hjálp til þess að takast á við þessa vanlíðan og að eineltið endurtaki sig ekki. Það er gott að þú hafir fengið aðstoð frá skólasálfræðingnum þínum á síðasta skólaári, mögulega þarf þó fleiri aðila að borðinu til þess að stöðva eineltið. Námsráðgjafar eiga t.d. að standa vörð um velferð nemenda á sem breiðustum vettvangi og gæta þess að nemendur búi við jafnrétti og að réttlætis sé gætt gagnvart þeim innan skólans. Þú gætir því leitað til námsráðgjafa til að aðstoða þig við að þú upplifir ekki einelti á nýjan leik. Einnig gæti verið gott að leita til umsjónarkennara þíns.
Það væri mjög gott ef þú myndir ræða við einhvern fullorðin í fjölskyldunni þinni sem þú treystir sem gæti þá aðstoðað þig við að ræða við umsjónarkennara þinn strax í skólabyrjun, námsráðgjafa og eða skólasálfræðinginn.
Varðandi vanlíðan þína og kvíðann er afar mikilvægt að þú haldir áfram að fá aðstoð til þess að vinna með það, mögulega hjá skólasálfræðingnum þínum. Einnig gæti verið gott fyrir þig að hafa samband við Rauða krossinn, þau eru bæði með hjálparsíma og netspjall. Þar getur þú talað við sjálfboðaliða í trúnaði, ef þú vilt hafa samband í gegnum netspjallið ertu beðin um að gefa upp nafn eða netfang en þú þarft ekki að gefa upp rétt nafn. Hjálparsími Rauða krossins, 1717, er gjaldfrjáls sími sem er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna þess að þeim líður illa, finna til depurðar, kvíða, þunglyndis, eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem hafa það á tilfinningunni að þeir séu komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu. Í neyðartilvikum á alltaf að hringja í 112.
Hér er að finna fleiri upplýsingar vegna sjálfsvígshugsana
Vonandi hjálpar þetta þér eitthvað en þú getur alltaf haft samband við okkur aftur, með því að senda okkur skilaboð t.d í gegnum spjallið á síðunni, eða með því að hringja í okkur á daginn í síma 8005999, það kostar ekkert að hringja.
Kveðja frá skrifstofu umboðsmanns barna