Val á framhaldsskóla
stelpa
16
Sem 16 ára gömul stelpa hef ég sjálf ákvörðunn um í hvaða framhaldsskóla ég fer í en ekki mamma mín?
Komdu sæl
Það er að sjálfsögðu þín ákvörðun í hvaða skóla þú sækir um í. Það er þó eðlilegt að mamma þín vilji hafa áhrif á val þitt, enda ber hún ábyrgð á velferð þinni og á að stuðla að því að þú fáir menntun og starfsþjálfun við þitt hæfi.
Þó að mamma þín geti ekki stjórnað því alveg í hvaða skóla þú ferð er mikilvægt að hafa í huga að foreldrar fara með forsjá barna fram til 18 ára aldurs og ráða því persónulegum högum þeirra, svo sem búsetu. Mamma þín gæti því t.d. haft áhrif á það hvort þú færir í heimavistarskóla eða ekki. Henni ber þó ávallt að hlusta á þig og taka réttmætt tillit til skoðana þinna og óska.
Umboðsmaður barna mælir með því að þú ræðir málin við mömmu þína og útskýrir fyrir henni þín sjónarmið. Þannig gætuð þið komist að niðurstöðu sem þið eruð báðar sáttar við. Það getur einnig verið gott að ræða málin við einhvern annan fullorðinn sem þú treystir, t.d. námsráðgjafa. Þér er er einnig velkomið að koma á skrifstofu umboðsmanns barna eða hringja í síma 800 5999.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna