Ung mamma í fjárhagsvanda
stelpa
17
Hæhæ, ég er 17 ára mamma.
Málið er allavega að amma mín er með forræðið en ég bý hjá hinni ömmu minni og afa. Hún fær þannig barnabæturnar sem eiga fara í mig og meðlagið.
En ég á ekki nóg pening til þess að halda mér og barninu mínu uppi, þannig ég var að spá hvort ég ætti ekki rétt á að fá þennan pening sjálf? Þar sem ekkert af honum fer í mig..
Ég veit ekki hvað ég á að gera eða hvert ég á að snúa mér því hún vil ekki láta mig fá þennan pening sjálf.
Komdu sæl
Það er leitt að heyra að þú eigir ekki nægan pening til þess að sjá fyrir þér og barninu þínu.
Því miður er ekki gert ráð fyrir því að börn geti fengið meðlag eða barnabætur með sjálfum sér. Þú átt hins vegar rétt á því að fá meðlag og barnabætur með barninu þínu. Ef þú ert ekki að fá meðlag með barninu þínu getur þú leitað til sýslumannsins í því sveitarfélagi sem þú býrð.
Þar sem móðuramma þín er með forsjá yfir þér á hún að sjá fyrir þér. Ef hún er ekki að gera það ættir þú að hafa samband við barnavernd í því sveitarfélagi sem þú átt lögheimili. Hér er listi yfir barnaverndarnefndir á Íslandi.
Þú segir að móðuramma þín neiti að láta þig fá meðlagið. Ef til vill gæti verið gott að fá föðurömmu þína, afa eða einhvern annan sem þú treystir til að hjálpa þér að ræða við hana. Þú getur sagt henni að það er hægt að stöðva meðlagsgreiðslur til hennar þar sem þú býrð ekki hjá henni, en þá fær enginn meðlagið. Ef hún neitar þrátt fyrir þetta getur þú haft samband við okkur og við leiðbeinum þér hvernig hægt er að stöðva meðlagsgreiðslur til hennar.
Að lokum má benda þér á að hafa samband við félagsþjónustuna í því sveitarfélagi sem þú býrð, en þar er mögulega einhvern fjárhagslegur stuðningur í boði.
Ef þú ert með frekari spurningar eða vilt ræða þetta nánar getur þú hringt í síma 800-5999. Þú getur líka sent okkur símanúmerið þitt og við höfum samband við þig.
Gangi þér vel!
Kær kveðja frá umboðsmanni barna