Um skyldur skólans og kennara
strákur
14
Sæl, ég var að pæla hvort kennarinn megi segja "þú ert ekki hér mín vegna mér er alveg sama þótt þú lærir ekki ég tapa ekkert á því bara þú" Er ekki fólgið í starfi kennarans að reyna allt til að vekja áhuga hjá nemendanum?
Svo líka það að ég var í skóla þar sem bekkirnir eru 1 - 7 bekkur svo kemur annar skóli fyrir 8 - 10 ég flutti úr hverfinu þegar ég var í 7 bekk flutti ekki langt úr því bara það að ég aðeins útúr því þar sem hverfin "splittast" og ég kláraði 7, bekk í þessu skóla en í 8.bekk byrjaði ég í skólanum sem var nær mér ég var þar í smá tíma en hætti svo því mér fannst þetta hræðilegur skóli.. ég fékk aðgöngu í hinn skólan sem ég hefði farið í ef ég hefði ekki flutt væntanlega sem er fyrir 8 - 10 bekk. Ég er ágætis námsmaður en er í þessum "vandræða unglingahópi" hjá kennurunum og hafa þeir mig oft fyrir rangri sök og minna mig oft á það þau geta látið reka mig úr skólanum þar sem þau eru ekki skyldug til að taka við mér í þennan skóla. Mér finnst þetta mjög pirrandi og þar sem kennararnir eru ekki að gera mikið til að láta mig fá áhuga fyrir efninu þarna finnst mér þetta mjög leiðinlegt.. að reyna ekki einu sinni .. þar sem ég læri mjög vel ef kennarinn er skemmtilegur við mig er ekki að tala um að gefa mér frí í skóla bara vera nice við mann þá lærir maður. Í þeim tímum sem kennararnir eru nice við mig er ég með hærri einkunir en í hinum en stundum þegar ég er í tímum hjá þessum kennurum sem eru frekar leiðinleg við mig þá segja þau að ég sé að tala á fullu og skamma mann þótt ég hafi ekki verið að tala við neinn og verið að læra og þegar ég reyni að segja einhvað segja þau bara á þetta er akkurat það sem ég er að tala um og ég reyni að svara fyrir mig kurteisilega en þau verða bara meira pirruð og segja að ég hafi engin réttindi til að svara fyrir mig hef ég þau ekki þar sem það er verið að brjóta á rétti mínum þar eða?
Komdu sæll
Já það er rétt hjá þér að í starfi kennara felst að reyna að vekja áhuga nemenda á náminu. Kennurum ber að koma fram við nemendur sína af virðingu, sama hvort þeir hafa staðið sig vel eða illa. Það er ekki ásættanlegt að þeir lítillækki nemendur sína og láti í ljós að þeim sé sama um frammistöðu þeirra og áhuga á náminu.
Eftirfarandi tilvitnun er úr Siðareglum kennara:
1. Kennarar vinna að því að mennta nemendur og stuðla að alhliða þroska þeirra með fræðslu, uppeldi og þjálfun.
2. Kennurum ber að virða réttindi nemenda og hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi, efla sjálfsmynd þeirra og sýna sérhverjum einstaklingi virðingu, áhuga og umhyggju.
Þú verður samt að hafa í huga að nemendur eiga líka að koma fram við kennara og aðra starfsmenn skólans af virðingu. Í grunnskólalögum segir m.a. að nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla í öllu því er skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisvenjum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.
Það er alveg klárt að sveitarfélaginu (t.d. Reykjavík, Kópavogi, Akureyri...) ber skylda til þess að sjá til þess að skólaskyld börn njóti menntunar við hæfi.
Þegar skólinn hefur tekið þig inn, ber hann sömu skyldur gagnvart þér og öðrum nemendum (sem tilheyra skólahverfinu). Ef það koma upp agavandamál gilda ákveðnar reglur um meðferð mála og brottrekstur úr skóla. Það er ekki réttlátt að þér sé tjáð að þú fáir að vera í skólanum upp á náð og miskunn skólastjórnenda, enda er það ekki rétt því skólanum ber skylda til að taka við þér svo framarlega að það sé pláss fyrir þig. Sömu reglur eiga að því gilda um þig og aðra nemendur skólans.
Svona eru reglurnar í Reykjavík:
1. Allir foreldrar eiga kost á að sækja um skóla fyrir börn sín hvar sem er í borginni skv. innritunarreglum.
2. Nemendur með lögheimili í tilteknu skólahverfi eiga afdráttarlausan rétt á skólavist í hverfissskóla og því forgang ef skóli þarf að takmarka nemendafjölda.
3. Skóli tekur inn nemendur utan skólahverfis nema húsnæði hamli. Hafni skóli inntöku nemenda á þessum forsendum skal skólastjóri tilkynna foreldrum það skriflega. Komi til aðrar ástæður sem skóli telur að hamli inntöku nemenda gerir skólastjóri skriflega grein fyrir því og kynnir foreldrum. Foreldrar geta þá vísað málinu til yfirstjórnar Menntasviðs enda sé þeim kynntur sá réttur.
4. Nemendur sem sækja skóla í öðru skólahverfi en lögheimili þeirra er, eiga sama rétt til skólavistar og þjónustu og nemendur úr skólahverfi skólans.
...
Ef þú býrð annars staðar getur þú hringt í sveitarfélagið þitt og beðið um samband við skólaskrifstofuna. Starfsfólkið þar ætti að geta útskýrt reglur sveitarfélagsins eða sent þér þær.
Ef þú hefur ekki sagt foreldrum þínum frá framkomu starfsfólks skólans ættir þú endilega að gera það sem fyrst. Það sem þú og foreldrar þínur gætu gert, er að fá fund með skólastjóra og ræða þetta mál við hann og segja frá framkomu umræddra kennara við þig. Einnig má benda þér á að leita til námsráðgjafans í skólanum, sem gæti aðstoðað þig í þessu máli.
Gangi þér vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna