Þarf ég að vera nákvæmlega 15 ára til að geta fengið vinnu?
Strákur
14
Halló. Ég var að pæla í einu. Mætti ég fá vinnu á 15. ári eða verð ég að vera náhvæmlega 15 til þess að geta fengið vinnu?
Til að svara þér þá notuðum við gamalt svar sem passa vel við þína fyrirspurn. Hér getur þú lesið upprunalega svarið .
Almennt er talið að nám í grunnskóla sé full vinna og að best sé að börn noti þær stundir sem þau eiga lausar til að leika sér og stunda skipulagt frístundastarf.
Ef þig langar að fá þér vinnu mælir umboðsmaður með því að þú ráðfærir þig við foreldra þína. Það er þeirra að gæta hagsmuna þinna og sjá til þess að rétt sé farið að öllu.
Þó að almenna reglan sé sú að börn í skyldunámi megi ekki ráða til vinnu eru undantekningar frá henni:
Börn má ráða til þátttöku í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi.
Börn sem eru 14 ára eða eldri má ráða til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
Börn sem náð hafa 14 ára aldri má ráða til léttari starfa.
Í IV. viðauka reglugerðar um vinnu barna og unglinga er listi yfir störf af léttara taginu sem 13 ára og eldri mega vinna. Meðal þeirra er
- vinna í skólagörðum,
- létt skrifstofustörf,
- létt fiskvinnslustörf án véla,
- sala dagblaða,
- létt verslunarstörf en þó ekki við afgreiðslukassa.
Þegar þú nærð 15 ára aldri máttu vinna aðeins lengur í skólafríum og þegar þú ert búinn með grunnskólann máttu vinna í allt að 8 klst. á dag.
Vinnueftirlitið, www.vinnueftirlit.is, hefur eftirlit með lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga. Hér á vef Vinnueftirlitsins er að finna upplýsingar og fræðsluefni um vinnu barna og unglinga.
Gangi þér vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna