Skartgripir bannaðir í íþróttum
Mega kennarar banna þér að vera með skartgripi í íþróttum?
Spurningin í heild sinni:
Mega kennarar banna þér að vera með skartgripi í íþróttum? í íþróttum hér í skólanum mínum þurfum við að taka alla skartkripi úr og t.d ég er með 29 göt og ég þarf að taka þá alla úr og það tekur mig að minsta kosti hálf tíma að taka þá úr og svo annan hálf tíma að setja þá í. Þetta er nú alveg orðið hundleiðinlegt og ég nenni þessu ekki lengur. Megum meira segja ekki vera með úr.
Svar umboðsmanns barna:
Hæ, ungmenni eiga að ráða miklu um eigið líf og líkama. Ef þú vilt vera með skartgripi í íþróttum þá ættir þú að mega það svo lengi sem það skapar ekki hættu fyrir þig eða aðra nemendur. Þá má það ekki heldur koma í veg fyrir að þú getir tekið þátt í íþróttatímanum.
Það fyrsta sem þú ættir að gera er að fá að eiga samtal við íþróttakennarann þar sem þú færð að rökstyðja þína skoðun. Ef þér finnst að ekki sé hlustað á þig gæti líka verið gagnlegt að ræða þetta innan skólans til dæmis við nemendaráð eða skólaráð (það eiga að vera tveir fulltrúar nemenda í skólaráði, sem geta ef til vill tekið málið upp á fundi). Þú getur líka rætt málin við foreldra þína og beðið þá um að aðstoða þig og einnig við umsjónakennarann þinn eða námsráðgjafann í skólanum.
Gangi þér vel.
Góðar kveðjur frá umboðsmanni barna