Samskipti við mömmu og kærasta hennar erfið
stelpa
12
Umboðsmanni barna barst erindi frá 12 ára stelpu um samskiptavanda við móður og kærasta hennar. Það vantaði netfang með fyrirspurninni og er því ekki hægt að senda svarið. Þar sem hún bað um að erindið yrði ekki birt á síðunni verður hér einungis birtur hluti úr svari umboðsmanns.
Sú sem sendi fyrirspurnina er beðin um senda okkur netfangið sitt svo við getum sent henni svarið í heild sinni, annaðhvort hér á síðunni eða með því að senda tölvupóst á ub@barn.is.
Komdu sæl
Það er leitt að heyra hvernig móðir þín og kærasti hennar hafa komið fram við þig. Það er stundum þannig að þegar fólki líður illa og er áhyggjufullt þá kemur það niður á nánustu fjölskyldu. Við verðum að vona að mamma þín átti sig á því sem fyrst að henni ber að setja hagsmuni þína ofar sínum eigin. Mömmu þinni ber að hlusta á þig og leyfa þér að umgangast þá sem þér þykir vænt um, eins og t.d. afa þinn.
Umboðsmaður barna mælir með því að þú ræðir málin við einhvern fullorðinn sem þú treystir, t.d. námsráðgjafann í skólanum eða kennarann þinn.
Ef þér líður virkilega illa heima hjá þér og getur ekki leitað til náinna ættingja getur þú leitað til barnaverndarinnar þar sem þú átt heima. Barnaverndin hjálpar börnum og fjölskyldum þeirra. Þú getur beðið einhvern sem þú treystir um að hjálpa þér að hafa samband við barnaverndina eða beðið okkur hjá umboðsmanni barna að aðstoða þig.
Ekki hika við að hafa samband aftur en þá væri gott að þú myndir senda netfangið þitt til að þú getir fengið persónulegra svar.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna