Réttindi barna til að segja nei innan grunnskólans
Strákur
14
Ég er í grunnskóla í 9. Bekk og ég var að spá í það hver réttindi mín og annara barna séu að segja NEI innan grunnskólans. T.d Oft ef ekki altaf erum við lækkuð eða feld í íþrótta tímum ef við viljum t.d ekki hlaupa hring í kringum elliðarárvatn eða reyna virkilega á okkur í tímum. Margir eins og ég sjálfur hafa ekki líkamlega getu eða þol í að hlaupa stanslaust í 40 mín. Núna veistu afhverju ég spyr um þetta og nú spyr ég aftur hver eru réttindi grunnskólabarna til að seigja nei innan grunnskólans og þá helst í íþróttatímum?
Komdu sæll
Börn eiga sjálf að ráða miklu um eigið líf og líkama og það á vissulega að taka tillit til þess ef þau vilja ekki gera ákveðna hluti. Hins vegar er skólaskylda á Íslandi og því verða öll börn á aldrinum 6 til 16 ára að mæta í skólann og fylgja námskrá, skólareglum og fyrirmælum kennara.
Samkvæmt íslenskum lögum þurfa þau börn sem eru í skóla að læra það sem kemur fram í svokallaðri aðalnámskrá. Þess vegna er skylda að fara í ýmis fög – þar á meðal íþróttir. Í aðalnámskrá stendur m.a.:
Skólaíþróttir eru mikilvæg námsgrein til að skapa börnum og ungmennum aðstæður til heilbrigðra lífshátta, efla færni þeirra í samskiptum, auka þrek, byggja upp sjálfsmynd, styrkja ákvarðanatöku, kenna markmiðasetningu og streitustjórnun.
Eins og þú bendir réttilega á eru börn misjöfn og því ekki allir sem eiga eins auðvelt með að hlaupa eða gera aðrar æfingar. Skólinn á að taka tillit til þess og hjálpa nemendum að þjálfa upp þol og styrk, á eigin forsendum. Í aðalnámskrá stendur m.a.
Í kennslu skólaíþrótta skal gæta að jöfnum tækifærum nemenda til náms og taka mið af einstaklingsbundnum þörfum þeirra. Allir þurfa að njóta styrkleika sinna til að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Í þessu samhengi má nýta mörg áhugamál nemenda og hvetja til hreyfingar og heilbrigðis. Tækifæri gefst til að íhuga stöðu mismunandi hópa út frá jafnréttissjónarmiðum og bregðast þannig við mismunandi þörfum einstaklinga. Þá gefast tækifæri við margvísleg verkefni í skólaíþróttum til að iðka lýðræðisleg vinnubrögð þannig að nemendur læri um lýðræði í lýðræði. Tekið skal tillit til og borin virðing fyrir manngildi hvers og eins. Í skólaíþróttum skal unnið gegn einelti með góðum forvörnum,eftirliti og eftirfylgni í samræmi við áætlanir viðkomandi skóla.
Af þessu leiðir að nemendur þurfa að mæta í íþróttir en skólinn á líka að taka tillit til þess að við erum öll mismunandi og hlusta á skoðanir nemanda um hvað þeir vilja gera í tímum. Það er ekki rétt að nemandi sem mætir og gerir sitt besta falli í íþróttum.
Ef þú ert ósáttur við íþróttakennsluna í þínum skóla gæti verið góð hugmynd að ræða það innan skólans, t.d. á vettvangi nemendafélagsins eða skólaráðs (það eiga að vera tveir fulltrúar nemenda í skólaráði, sem geta e.t.v. tekið málið upp á fundi). Þú getur líka rætt málin við foreldra þína og beðið þá um að aðstoða þig og einnig við umsjónakennarann þinn eða námsráðgjafann í skólanum.
Ef þú ert með fleiri spurningar eða vilt ræða málið nánar skaltu endilega hringja í síma 800-2999 (gjaldfrjálst) eða svara þessum pósti.