Pabbi minn hélt fram hjá mömmu minni
stelpa
14
Sko ég veit að pabbi minn hélt fram hjá mömmu minni en hún veit ekki af því.. hvað á ég að gera???!
Komdu sæl
Það er mjög slæmt að þú skulir vera að burðast með þetta “leyndarmál” ein. Það er ekki hægt að mæla með “einni réttri leið” til að takast á við svona mál. Það fer allt eftir fjölskyldugerð, einstaklingum og aðstæðum hvaða leið er best að fara.
Það er yfirleitt farsælast að leysa svona mál innan fjölskyldunnar. Þú gætir t.d. beðið foreldra þína að setjast niður með þér og sagt þeim frá því sem þú veist og hvílir á þér. Í þínu tilfelli gæti þó kannski verið betra að ræða þetta fyrst við mömmu þína.
Þú getur líka auðvitað valið þá leið að setjast niður með pabba þínum og segja honum frá því sem þú veist (ef hann veit það ekki nú þegar) og sérstaklega hvernig þú upplifir þetta.
Þó að þetta mál eigi bara að vera á milli foreldra þinna, þurfa þeir að gera sér grein fyrir því að framhjáhald hefur djúpstæð áhrif á börn og því er best að börnin þurfi ekki að upplifa mikla reiði í fjölskyldunni eða óvissu um framtíðina.
Ef þú getur alls ekki hugsað þér að ræða þetta við foreldra þína eða þú telur þörf á aðstoð fagfólks þá má benda þér á Tótalráðgjöfina, www.totalradgjof.is. Þar er hægt að fá ráðgjöf fagfólks á ýmsum sviðum. Einnig má benda þér á fjölskylduþjónustu sveitarfélagsins eða presta. Mörgum finnst gott að tala við prestinn sinn um viðkvæm og persónuleg trúnaðarmál. Þar sem núna er sumarfrí er ekki hægt að nefna námsráðgjafann í skólanum en hann getur aðstoðað krakka í svona málum. Þessir aðilar eru allir bundnir trúnaði.
Þú þarft með einhverju móti að koma þessu frá þér með því að ræða þetta við einhvern sem þú treystir hvort sem það er einhver í fjölskyldunni, vinkona eða fagaðili.
Hafðu samt hugfast að hvað sem gerist í framhaldinu máttu alls ekki kenna sjálfri þér um. Þetta mál verða foreldrar þínir að leysa sín á milli og vissulega ber þeim að hafa velferð barns / barna sinna í fyrirrúmi í þessu ferli.
Með von um að allt fari vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna