Pabbi brjálast eftir fótboltaleik
Stelpa
13
Þegar ég er búin að keppa í fótbolta og við vinnum 3-0, má pabbi manns þá brjálast og segja að þetta hafi verið ömurlegur leikur og bara hund-leiðinlegur leikur og skamma mann fyrir að vera lélegur í fótbolta og eitthvað?
Hæ hæ.
Í stuttu máli er svarið nei, pabbi þinn má ekki brjálast og segja hluti sem eru til þess ætlaðir að draga úr gleði og ánægju sem á að skapast við það að spila fótbolta.
Foreldrar hafa ákveðnar skyldur gagnvart börnunum sínum. Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna og eiga að sýna barni sínu umhyggju og virðingu og vernda það fyrir hvers kyns ofbeldi, m.a. andlegu ofbeldi. Það er einnig hlutverk foreldra að styðja við barnið sitt og kenna því góð samskipti. Það er hægt að gera með ýmsum hætti, til dæmis með því að vera góð fyrirmynd fyrir börnin sín. Það er ekki í samræmi við þessar skyldur foreldra að brjálast eftir fótboltaleik og segja niðurlægjandi hluti við barnið sitt.
Það er hlutverk foreldra að gera það sem þau geta til að styðja við barnið sitt í fótbolta eða öðrum íþróttum eða tómstundum með jákvæðri framkomu. Foreldrar mega ekki gleyma að það á að vera skemmtilegt fyrir barnið að stunda íþróttir, enda getur það verið frábær leið til að hreyfa sig og til að eiga góð samskipti við jafnaldra sína. Foreldrar bera mikla ábyrgð á því hvernig barninu þeirra líður við íþróttaiðkun og þau skilaboð sem pabbi þinn var að gefa eftir leik er alls ekki til fyrirmyndar.
Í foreldrabæklingi sem Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hefur gefið út er lagt til að foreldrar dragi sig til hliðar og slaki á ef þau sýna ákveðin hættumerki eins og t.d. að hafa áhyggjur af úrslitum leikja, hella sér yfir dómara eða þjálfara eða upplifa sinn eigin knattspyrnuferil í gegnum barnið sitt. Þú átt að fá að fá að stunda fótbolta á þínum eigin forsendum en ekki forsendum foreldra þinna.
Við eigum öll okkar góðu og slæmu stundir og ef til vill átti pabbi þinn ekkert sérstaklega góða stund þennan dag sem bitnaði á framkomu hans. Þó svo að það sé engin afsökun þá má vel vera (og vonandi) að hann sjái eftir því að hafa sagt þessa hluti við þig. Ef þú treystir þér til væri gott að ræða um þetta við hann og segja honum hvaða áhrif þessi hegðun hefur á þig. Þú gætir jafnvel sýnt honum þetta svar.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna